Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Hálka og vetrarfærð víða um land

13.11.2020 - 16:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hálka og hálkublettir eru nú á vegum í flestum landsfjórðungum. Mest er hálkan á Norðurlandi og þar var sumstaðar flughált í morgun.

Á Suðvesturlandi eru víða hálkublettir, meðal annars á Suðurstrandarvegi, Hellisheiði, Mosfellsheiði og í kringum Þingvallavatn. Þá eru hálkublettir á vegum í Biskupstungum og þar fyrir austan.

Á Vestfjörðum eru hálkublettir á veginum um Hálfdán, á Kleifaheiði og Ströndum. Á Vesturlandi eru hálkublettir á leiðinni fyrir Hvalfjörð, á Snæfellsnesi og í Dölum. Þá eru hálkublettir á Laxárdalsheiði og í Hrútafirði.

Háklublettir eru á þjóðvegi eitt í Húnavatnssýslum og á Norðurlandi, þar fyrir austan, er hálka á nær öllum vegum. Í Skagafirði, Eyjafirði og Suður-Þingeyjarsýslu.

Hálka og snjóþekja er á Mývatns- og Möðrudalsöræfum, hálka á Vopnafjarðarheiði og hálkublettir á Tjörnesi og Hófaskarðsleið.

Á Austurlandi er hálka á Jökuldal og Fjarðarheiði. Hálkublettir eru á Fagradal og Breiðdalsheiði og snjóþekja á Öxi. Þungfært er til Mjóafjarðar. Greiðfært er með ströndinni á Austfjörðum og þaðan suður á land.

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV