Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Forsetakosningarnar „þær öruggustu í sögunni“

epa08801931 A supporter of President Donald J. Trump wears a mask of vice-president Joe Biden as he attends a protest outside the vote counting center in Philadelphia, Pennsylvania, USA, 05 November 2020. The 2020 Presidential Election result remains undetermined as votes continued to be counted in several key battleground states.  EPA-EFE/MÁRIO CRUZ
 Mynd: EPA
Nefnd sem hefur eftirlit með kosningaöryggi í Bandaríkjunum segir forsetakosningarnar 3. nóvember „þær öruggustu í sögunni“ og vísar á bug yfirlýsingum um meint kosningasvindl. Donald Trump sitjandi forseti hefur ítrekað haldið því fram að brögð hafi verið í tafli er hann laut í lægra haldi fyrir andstæðing sínum, demókratanum Joe Biden.

Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá eftirlitsnefndinni sem heyrir undir heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna og hefur yfirumsjón með kosningaeftirliti þar í landi. Þar kemur fram að engar sannanir séu fyrir fullyrðingum um svindl - þvert á móti hafi farið fram virkt eftirlit með þeim.

Nefndin segir að „ekkert bendi til þess að nokkur kosningasvik hafi verið stunduð,“ og verið sé að handtelja öll atkvæði í ríkjum þar sem mjótt er á munum. Skýr pappírsslóð sé af öllum atkvæðum.

Forsetinn hefur farið mikinn á Twitter eftir kosningarnar. Meðal annars hefur hann haldið því fram að 2,7 milljón atkvæðum kjósenda sinna hafi verið eytt á landsvísu. Forsetinn hefur enn ekki viðurkennt ósigur þrátt fyrir að Biden hafi hlotið nægan fjölda kjörmanna til að bera sigur úr býtum.

Trump og teymi lögfræðinga á hans vegum hafa höfðað mál í nokkrum ríkjum til að fá úrslitum kosninganna hnekkt. Utanríkisráðherra Bandaríkjanna Mike Pompeo segir enn ekki tímabært að lýsa sigurvegara kosninganna þrátt fyrir að allir helstu miðlar landsins hafi gert það og ljóst sé af niðurstöðum kosninga í þeim ríkjum sem mestu máli skipta að Biden hafi tryggt sér nægan fjölda kjörmanna til að vera lýstur forseti og taka við embætti í lok janúar.