Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Formaður borgarráðs: „Við erum bara slegin“

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að fulltrúar ráðsins séu slegnir yfir fréttum af vistheimilinu Arnarholti. Málið var rætt á fundi ráðsins í gær. Hún segir að til greina komi að ráðast í rannsókn á málinu.

Starfsfólk á vistheimilinu Arnarholti lýsti ómannúðlegri meðferð á heimilisfólki í ítarlegum vitnaleiðslum fyrir tæpri hálfri öld. Greint hefur verið frá því sem fram kom í vitnaleiðslunum í fréttum í vikunni.

Málið var rætt á fundi borgarráðs í gær.

„Já við ræddum það aðeins óformlega í upphafi fundar, þar sem málið kom upp á milli þess sem dagskrá var send út og fundurinn var. Og við ræddum að við myndum taka þetta mál seinna, taka vel utan um það og safna gögnum og átta okkur á stærðargráðunni. Það nístir auðvitað í hjartað hjá okkur öllum yfir þessari gömlu staðreynd,“ segir Þórdís Lóa.

Horfa til fyrri rannsókna

Kemur til greina að ráðast í rannsókn á þessu máli?

„Það kemur alveg til greina. Við þurfum bara að átta okkur á því hvernig það myndi verða. Og við lítum auðvitað til fyrri verkefna á vegum forsætisráðuneytisins þegar kemur að svona skoðunum og rannsóknum.“

Þórdís Lóa segir að fyrsta skref í málinu sé að afla gagna.

„Við komum til með að taka þetta mjög fljótlega, ég geri fastlega ráð fyrir því að þetta verði rætt mjög mikið á meðal okkar, bæði inni í pólitíkinni en líka á meðal fagfólksins á næstu vikum og dögum.“

Þórdís Lóa segir að þverpólitísk sátt sé um að ræða málið.

„Við höfðum ekkert heyrt um þetta fyrr en við heyrðum um þetta í fjölmiðlum. Og við erum bara slegin, það verður að segjast,“ segir Þórdís Lóa.