Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Flugfélagið Ernir skoðar lagalega stöðu sína

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Forstjóri flugfélagsins Ernir segir það ljóst að lög hafi verið brotin þegar Vegagerðin gekk til samninga við Norlandair um flug til Bíldudals og Gjögurs. Lögmenn Ernis skoða næstu skref.

Vegagerðin gekk til samninga við Erni og Norlandair nýlega um flug milli Reykjavíkur og Gjögurs, Bíldudals og Hafnar. Ernir hefur um árabil flogið til þessara áfangastaða en að þessu sinni féllu flugleiðirnar til Bíldudals og Gjögurs í hendur Norlandair. flogið verður samkvæmt nýjum samningum eftir þrjá daga.

Flugleiðirnar voru upphaflega boðnar út í apríl og átti þá norlandair lægsta boð í þær allar. Ernir kærði þá niðurstöðu á þeim grundvelli að flugvélar Norlandair stóðust ekki kröfur. Það varð til þess að hægt var á ferlinu og bjóðendum veitt svigrúm til þess að skýra boð sín betur, að sögn Vegagerðarinnar. Flug á milli Hafnar og Reykjavíkur féll þá að endingu Erni í hönd.

Þetta hefur vaki hörð viðbrögð á sunnanverðum Vestfjörðum þar sem áhyggjur eru uppi um að flugvélar og þjónusta Norlandair séu lakari en hjá Erni. Þetta hafa Samtök atvinnurekenda á Sunnanverðum Vestfjörðum ályktað um og bæjarstjórinn í Vesturbyggð sagðist taka undir þær áhyggjur ef rétt reyndist. Vegagerðin og Norlandair höfnuðu þessu í gær og áréttuðu að boð Norlandair hafi staðist allar kröfur. 

Hörður Guðmundsson, forstjóri flugfélagsins Ernis, segir ljóst að lög hafi verið brotin og að þær vélar sem Norlandair ætli sér að nota standist ekki útboðið. Með ólíkindum sé að hægt sé að breyta útboðum eftir að tilboð hafa verið gerð. Útboðsferlið hafi allt verið í skötulíki og að lögfræðingar fyrirtækisins skoði nú næstu skref. 

Með þessu fækkar áfangastöðum Ernis um helming og flýgur félagið þá einungis til Hafnar og Húsavíkur. Hörður segir liggja fyrir að þetta komi illa við fyrirtækið og að með þessu þurfi að fækka starfsfólki og taka til í rekstri.