„Ég upplifði mig sem einan í heiminum“

Mynd: Andri Hrafn Agnarsson / Facebook

„Ég upplifði mig sem einan í heiminum“

13.11.2020 - 10:14

Höfundar

Fyrir átta árum komst Andri Hrafn Agnarsson að því að hann væri ófrjór. Áfallið var mikið og hafði ófyrirsjáanleg áhrif á líf hans en núna, öllum þessum tíma síðar, hafði hann þörf til að tala um það. Hann ákvað að búa til hlaðvarp.

Andri Hrafn kíkti í Lestina og sagði frá reynslu sinni og hlaðvarpinu sem nefnist 1 af 6 - Sagan sem breytti lífi mínu. Hann segir það nefnilega hafa komið sér á óvart að um eitt par af hverjum sex þarf einhvers konar aðstoð við að geta barn, miðað við tölfræðina. Titill hlaðvarpsins vísar í þá staðreynd.

Andri opnaði sig fyrst um málið fyrir átta árum í Íslandi í dag og segir hann það hafa verið mikla berskjöldun. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan þá.

„Ertu að skjóta púðurskotum?“

„Mig minnir að við höfum að vera að reyna í svona tæplega tíu, ellefu mánuði án þess að Sara yrði ólétt. Við fórum að velta því fyrir okkur hvort mögulega eitthvað gæti verið að,“ rifjar Andri upp.

Um svipað leyti fór hann á öldurhús með vinum sínum og barneignir bárust í tal. „Einn skaut á mig: Andri er ekkert að frétta af þessari óléttu? Ertu að skjóta púðurskotum eða hvað?“ Þá gat hann hlegið að brandaranum en fyrr en varði hætti slíkt grín alveg að vera fyndið. „Þá hafði ég svo sem ekki hugmynd um hvað átti eftir að koma.“

Spurði sjálfan sig hvers konar karlmaður hann væri

Það eru um átta ár síðan hann fékk það staðfest að hann gæti ekki eignast barn á hefðbundinn hátt. „Það er út af því að eftir rannsóknir á mér kom í ljós að ég gat ekki átt barn með mínu DNA og þá tók við ofboðslega skrýtið ferðalag. Það var enginn til að tala við,“ segir hann.

Þegar Andri í örvæntingu leitaði sér upplýsinga á vefnum fann hann eingöngu umfjöllun um konur sem glímdu við ófrjósemi. Það var ekkert um karla í hans sporum. „Kannski er það þannig að við karlmenn viljum ekki tala um þetta og ég skil það svo vel. Ég þurfti að spyrja sjálfan mig hvers konar karlmaður ég væri og mér fannst þetta mjög óþægilegt,“ segir hann. „Ég skil að það hafi ekki verið neinn til að leita til en þar af leiðandi upplifði ég mig sem einan í heiminum.“

Andri ákvað að vera sjálfur til staðar fyrir aðra karlmenn og fólk í sömu sporum og segja sögu sína í hlaðvarpinu. „Þegar ég greindist hefði breytt mig öllu ef ég hefði getað sest niður og hlustað á svona sögu. Tengt við einhvern sem væri að kljást við þetta.“

Ekki alltaf til í að gera grín að þessu

Með tímanum hafi honum tekist að hafa húmor fyrir ófrjóseminni. Það hafi að einhverju leyti verið hans leið til að takast á við hana, að gera grín að henni. En hann er ekki alltaf í stuði fyrir slíkt. „Það verður að vera á mínum forsendum og suma daga var ég ekkert til í að gera grín að þessu,“ segir hann.

Tók tíma að þora að stíga skrefið

Fjölskyldan hefur um hríð verið búsett erlendis en þau fluttu heim vegna heimsfaraldursins. Andri starfar sem flugmaður en vegna ferðatakmarkana hefur hann ekki haft mikið að gera síðustu mánuði. „Það var allt stopp svo ég fer að hafa mikinn auka tíma. Þessi hugmynd hafði alltaf blundað í mér því mig langaði að segja almennilega frá þessu öllu saman en það tók mig tíma að þora því,“ segir hann um nýja hlaðvarpið.

Mynd með færslu
 Mynd: Andri Hrafn Agnarsson - Aðsend
Dóttir Andra er prakkari eins og pabbi sinn.

Vill að dæturnar fái tækifæri til að skilja

Andri og Sara Petra eiga núna tvær dætur og vildi Andri, ekki síst fyrir þær, opna sig um málið. Það skiptir hann miklu máli að segja satt og rétt frá öllu saman og að allt sé uppi á borðum, þeirra vegna. „Það er mikilvægt að dætur mínar viti þegar þær verða eldri að ég skammast mín ekki fyrir þetta og af hverju ættu þær þá að gera það?“ segir hann. „Svo er ég búinn að læra að það er ekki sjálfgefið að fá að eldast og ef ég verð ekki hérna þegar dætur mínar verða nógu gamlar til að skilja þetta þá vil ég að þær geti heyrt þetta og viti hvað þetta skipti mig miklu máli.“

Þrátt fyrir að dætur Andra séu ekki blóðskyldar honum segist hann sjá mikið í eldri dóttur sinni sem hún hafi frá sér. „Við höfum fengið að heyra það stundum að hún sé lík mér,“ segir Andri. „Persónulega sé ég mikið af mínum töktum og karakter.“

Í hlaðvarpinu segir Andri meðal annars þessa sögu:

Núna er ég búinn að vera pabbi í sex ár og það er allt sem ég hefði ímyndað mér og í raun miklu meira en það. Ég elska ekkert meira en að fá að vera pabbi dóttur minnar. Hún er algjör prakkari, alltaf að stríða fólkinu í kringum sig. Um daginn spurði mamma hennar hana: Af hverju ertu svona mikill prakkari? Það stóð ekki á svörum: Af því að ég er alveg eins og pabbi.

Tók verulega á að taka skrefið

Fyrsta þáttinn tók Andri upp í júní og þann síðasta í september, rétt eftir að yngri dóttir hans fæddist. „Mér fannst þetta góður tímapunktur og ég er mjög sáttur við útkomuna,“ segir hann. Það var hins vegar ekki auðvelt að deila afurðinni með almenningi. „Það tók verulega á að taka þetta skref en þegar ég spurði sjálfan mig þá vissi ég að þetta væri rétt, að ég yrði að gera það.“

„Ég fer bara að hágráta“

Og það koma augnablik í hlaðvarpinu þar sem Andri brotnar saman. „Ég fer bara að hágráta, það er bara þannig,“ segir hann. „Þetta var í raun rosalega gott ferðalag fyrir mig að fara í gegnum alla söguna. Mér leið ofboðslega vel þegar ég var búinn að gera þetta.“

Og síðan þættirnir komu út segist hann hafa fengið fjöldann allan af skilaboðum frá fólki sem þekkir til vandans eða þættirnir hreyfðu við á einn eða annan hátt. „Ég var að vona að þetta myndi ná til einhvers sem hefði áhuga á að hlusta. Fyrir okkur sem eigum börn er það það mikilvægasta í lífi okkar svo ég myndi segja að ef ég met þetta út frá sjálfum mér séu viðbrögðin í samræmi við hve mikilvægar dæturnar eru mér.“

Fjarlægðist sína nánustu

Sara Petra fékk að hlusta á þættina áður en Andri gaf þá út og segir hann að það hafi tekið á hana að rifja erfiðustu tímana upp. En það var ekki síst erfitt fyrir fjölskyldu hans og vini að heyra hvað hann gekk í gegnum. „Ég held þetta hafi verið sérstaklega erfitt fyrir foreldra og systkini sem vissu ekki hve ofboðsleg áhrif þetta hafði á líf mitt,“ segir Andri.

Margir hafi þó orðið varir við að hann hafi hegðað sér undarlega eftir greininguna og hann orðið fjarlægur og þættirnir hjálpuðu þeim að skilja hvers vegna. „Ég hætti að vera í sambandi, mig langaði það bara ekki. Ég einangraði mig mjög mikið og vorkenndi sjálfum mér á tímabili,“ rifjar Andri upp. „Þetta hefur verið óbærilegt fyrir konuna mína á köflum en við erum teymi í þessu og hún var ótrúlega sterk í gegnum þetta allt saman.“

„Ef ég get ekki eignast fjölskyldu með þér vil ég ekki eignast fjölskyldu“

Á erfiðasta tímanum íhugaði Andri meira að segja að fara frá konunni sinni því hann taldi hana eiga betra skilið. Einn daginn ákvað hann að ganga út. „Mér fannst ég ekki hafa neinn rétt á að vera með henni. Það var ég sem var vandamálið. Hún gat eignast barn með einhverjum öðrum,“ segir Andri.

Hann tók ákvörðunina og tilkynnti henni að hann vildi slíta sambandinu, hún hefði ekkert um það að segja. „Svo strunsaði ég inn í herbergi og lokaði á eftir mér.“ Það liðu ekki nema örfáar mínútur þar til konan hans kom á eftir honum. „Ég hafði aldrei heyrt hana jafn reiða og þegar hún sagði við mig: Andri. Ekki voga þér að segja þetta nokkurn tíma við mig aftur. Við erum saman í þessu og ef ég get ekki eignast fjölskyldu með þér þá vil ég ekki eignast fjölskyldu.“

Veit hvað þetta er erfitt

Nú eru þau orðin fjögur í fjölskyldunni. Eftir fæðingu eldri dóttur sinnar hafði Andri miklar áhyggjur af því hvaða áhrif ófrjósemi hans myndi hafa á hana þegar hún yrði eldri. „Ég var mikið að velta þessu fyrir mér en eins og núna þá er ég kominn á þann stað að ég gaf út þetta hlaðvarp og svo lengi sem ég get lagt eitthvað af mörkum til að hjálpa fólki í þessari stöðu mun ég gera það. Þetta skiptir mig gríðarlega miklu máli því ég veit svo ofboðslega vel hvað þetta er erfitt.“

Anna Marsibil Clausen ræddi við Andra Hrafn Agnarsson í Lestinni á Rás 1.