Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Um 700 heimili fá matarúthlutun í næstu viku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölskylduhjálp Íslands afhendir skjólstæðingum sínum matargjafir frá Kaupfélagi Skagfirðinga mánudaginn 16. nóvember í Iðufelli í Breiðholti. Í þeirri viku verða alls fjórar matarúthlutanir, tvær í Reykjavík og tvær í Reykjanesbæ.

Fram að jólum verða matarúthlutanir alls sautján talsins og að sögn Ásgerðar Jónu Flosadóttur hjá Fjölskylduhjálpinni er matargjöf kaupfélagsins kúvending fyrir starfsemina. „Í fyrsta sinn í sautján ár hef ég ekki áhyggjur af jólunum,“ segir hún.

Gert er ráð fyrir að um 700 heimili í Reykjavík og Reykjanesbæ fái úthlutað í næstu viku. Ásgerður Jóna segir þó eftirspurn eftir matargjöfum hafa aukist, enda hafi fjöldi fólks misst vinnuna undanfarna mánuði. Víða sé hart í ári.

Við úthlutunina verður fyllsta sóttvarnaröryggis gætt að sögn Ásgerðar Jónu, fólk sækir um á netinu og fær svo skilaboð um hvenær ná megi í vörurnar. Allt starfsfólkið er með grímur og hanska og ætlast er til að viðskiptavinir Fjölskylduhjálparinnar fari eins að. Þegar á staðinn er komið fær fólk svo matarpakkann sinn afhentan úti við.

Í úthlutuninni í næstu viku verður að finna þrjár góðar máltíðir fyrir hverja fjölskyldu, þar á meðal súpukjöt og fisk með öllu tilheyrandi. Auk þess verði í hverjum pakka úrval annarra matvara sem nauðsynlegar séu fyrir hvert heimili. „Þessar 40 þúsund matargjafir frá Kaupfélagi Skagfirðinga gera gæfumuninn í nóvember og desember,“ segir Ásgerður Jóna Flosadóttir.