Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Tekist á um sjópróf Júlíusar Geirmundssonar á morgun

Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Ákveðið verður fyrir héraðsdómi Reykjaness á morgun hvort sjópróf fari fram í máli skipverjanna á Júlíusi Geirmundssyni. Lögreglan á Vestfjörðum hefur lokið skýrslutöku af allri áhöfn togarans. Prófessor við lögfræði segir sjópróf ekki einungis eiga við um slys á skipum.

Fimm stéttarfélög hafa farið fram á sjópróf í máli félagsmanna sinna á togaranum Júlíusi Geirmundssyni eftir að COVID-19 hópsýking varð þar um borð. Á morgun verður ákveðið fyrir héraðsdómi Reykjaness hvort sjóprófið verði og einnig hvort að útgerðin eigi að afhenda skipsbók togarans sem hún hefur neitað að gera. 

Sjópróf tíð fyrir aldamót en heyra nær sögunni til

Sjópróf er vitnaleiðsla fyrri dómi til að leiða í ljós atburðarás atvika á skipum. Guðmundur Sigurðsson, prófessor við Lögfræði í Háskólanum í Reykjavík, segir markmiðið yfir höfuð að tryggja bótarétt sjómanna sem slösuðust. 

„Til þess að hann ætti bótarétt að fullu, rétt á að fá tjón sitt bætt. Þá þurfti að sýna fram á að eitthvað hafi farið úrskeiðis sem útgerðin bæri ábyrgð á.“

Sjópróf voru tíð fyrir aldamót en árið 2001 fengu sjómenn nýja slysatryggingu þar sem ekki þurfti lengur að finna ábyrgðaraðila. Guðmundur segir að með því hafi þau heyrt nær sögunni til. Hann segir þá að þótt sjópróf séu yfir höfuð tengd slysum en ekki veikindum geti það samt vel átt við í máli sjómannanna á togaranum. 

„Það er ekkert verið að tengja þetta endilega við að það þurfi að hafa orðið slys um borði í skipi. Þvert á móti er verið að tala um að hugmyndin sé að hægt sé að nota þetta þegar eitthvað gerist sem aðilar, sem hafa heimild til að fara fram á sjópróf, telja þess eðlis að fullkomin ástæða sé til þess að það sé upplýst vel.“

Rannsókn lögreglu á lokametrum

Lögreglan á Vestfjörðum hefur málið til rannsóknar og hefur nú lokið skýrslutöku af öllum skipverjum, þar með talið skipstjóranum sem var í einangrun í síðustu viku. Að sögn Karls Inga Vilbergssonar lögreglustjóra var hann yfirheyrður á föstudag.

Beðið er eftir gögnum frá heilbrigðisstofnunum  um líðan og heilsu skipverjanna nú. Karl segir liggja fyrir að sumir hafi þurft að leita sér læknisaðstoðar vegna eftirkasta veikindanna. Rannsóknin sé á lokametrum en næst taki við að meta hvort ástæða sé til að fara lengra með málið eða fella það niður.