Sprengjugígur við hús í bænum Sushi í héraðinu Nagorno-Karabakh. Mynd: EPA-EFE - PHOTOLURE

Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.
Rússar og Tyrkir ræða sameiginlegt eftirlit
12.11.2020 - 09:03
Rússnesk sendinefnd er væntanleg til Tyrklands til að ræða sameiginlegt eftirlit með vopnahléi Armena og Asera. Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, greindi frá þessu í morgun.
Armenar og Aserar undirrituðu fyrr í vikunni samkomulag um vopnahlé sem náðist fyrir milligöngu Rússa. Þar var þó ekkert kveðið á um að Tyrkir kæmu þar nærri, en þeir studdu Asera í átökunum undanfarnar vikur. Það hefur hins vegar verið krafa Asera að Tyrkir fengju þar hlutverk.
Yfir 1.400 féllu í þessum síðustu átök Armena og Asera sem stóðu í rúmar sex vikur. Aserar endurheimtu þar svæði sem féllu í hendur Armenum í fyrri átökum þeirra á milli.
Mikil óánægja er í Armeníu með stöðu mála og nýgert vopnahléssamkomulag. Tyrkneski utanríkisráðherrann sagði í morgun að Armenar yrðu að gjalda það dýru verði ryfu þeir samkomulagið.