
Örðugt að kveða úr um hvort meðalhófs hafi verið gætt
Alþingi kom saman til fundar í morgun eftir hlé vegna nefndafunda. Óundirbúnar fyrirspurnir voru fyrstar á dagskrá þar sem langflestum spurningum var beint til fjármálaráðherra, meðal annars um hertar sóttvarnaaðgerðir sem hefðu haft íþyngjandi áhrif á almenning.
Sara Elísa Þórðardóttir varaþingmaður Pírata sem spurði fjármálaráðherra um þessi mál vitnaði í ummæli þingmanna Sjálfstæðisflokks sem segja aðgerðirnar komnar að þolmörkum enda þær hörðustu í Íslandssögunni og spurði hvort ráðherra ætlaði að beita sér gegn því að gripið yrði aftur til svo harðra aðgerða.
Fjármálaráðherra sagði að árangur Íslendinga gegn útbreiðslu veirunnar hefði vakið mikla athygli. Aðgerðirnar væru vissulega afar íþyngjandi en opin og gagnrýnin umræða um aðgerðir stjórnvalda væri nauðsynleg.
Sara Elísa spurði ráðherra hvort hann líti svo á að meðalhófs hafi verið gætt í notkun sóttvarnaheimilda í yfirstandandi hertum aðgerðum eða lítur ráðherra svo á að frelsi hafi verið takmarkað umfram það sem aðstæður gáfu tilefni til.
Svar Bjarna var að ekki væri auðvelt að kveða uppúr með það nákvæmlega hvort að meðalhófs hafi nákvæmlega verið gætt í hverju og einu tilviki við hverja og eina ákvörðun.
„En ég hef hins vegar staðið nokkuð nærri þessum ákvörðunum verandi í ríkisstjórn og ég hef orðið var við það að menn eru mjög að gæta sín á því við útfærslu reglna á þessu sviði að gæta meðalhófs, það má síðan alltaf hafa skoðun á því hvort að menn séu að dansa á línunni.“