Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Meintir stríðsglæpir Ástrala rannsakaðir

12.11.2020 - 08:35
epa08814872 Australian Prime Minister Scott Morrison looks on during a press conference at Parliament House in Canberra, Australia, 12 November 2020. Morrison announced that a special investigator will be appointed to carry out an inquiry into alleged Australian soldiers? war crimes in Afghanistan.  EPA-EFE/LUKAS COCH AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, greinir frá fyrirhugaðri rannsókn á fundi með fréttamönnum í morgun. Mynd: EPA-EFE - AAP
Stjórnvöld í Ástralíu hafa stofnað embætti sérstaks saksóknara til að rannsaka ásakanir um stríðsglæpi ástralskra hermanna í Afganistan. Þetta var ákveðið eftir frumrannsókn á vegum ástralska hersins, sem leiddi ljós tugi alvarlegra atvika tengd áströlskum hermönnum. 

Yfir 26.000 ástralskir hermenn tóku þátt í hernaðinum í Afganistan frá því Bandaríkjamenn og bandamenn réðust inn í landið síðla árs 2001 og  þangað til stjórnvöld í Canberra kölluðu heim lið sitt árið 2013.

Síðan hafa borist fregnir um harkalega framgöngu sérsveita ástralska hersins í Afganistan, meðal annars um að sex ára barn hafi verið skotið til bana við húsleit og fangi skotinn vegna plássleysis í þyrlu.

Þá var umfjöllun á vegum áströlsku sjónvarpsstöðvarinnar ABC árið 2017 um ódæðisverk hermanna gagnvart óvopnuðu fólki, börnum þar á meðal. Hún leiddi til að tveir starfsmenn stöðvarinnar voru sakaðir um að hafa með ólöglegum hætti komist yfir leyniskjöl. Þá var gerð húsleit í höfuðstöðvum sjónvarpsstöðvarinnar í Sydney í fyrra, en málið síðan fellt niður.  

Scott Morrison, forsætisráðherra Ástralíu, segir að Ástralar verði sjálfir að rannsaka þessi mál, en orðrómur er um að Alþjóðaglæpadómstóllinn hafi verið að íhuga að taka þau til rannsóknar.

 

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV