Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hjúkrunarfræðingur ákærður fyrir morð á átta ungbörnum

12.11.2020 - 02:55
Mynd með færslu
 Mynd: Dennis Turner - Wikipedia
Hjúkrunarfræðingur í ensku borginni Chester var í fyrradag handtekinn og ákærður fyrir morð á átta ungbörnum á sjúkrahúsi í borginni og tilraun til að bana 10 nýburum til viðbótar.

Í tilkynningu frá lögreglunni í Cheshire segir að hjúkrunarfræðingurinn sé þrítug kona, Lucy Letby að nafni, og að ákærurnar lúti að „mörgum dauðsföllum og alvarlegum en þó ekki banvænum atvikum" á fæðingadeild Countess of Chester-sjúkrahússins frá júní 2015 til júní 2016.

Letby verður leidd fyrir dómara í dag, fimmtudag. Í frétt AFP segir að hún hafi þegar verið handtekin í tvígang, 2018 og 2019, í tengslum við rannsókn á grunsamlegum dauðsföllum á fæðingadeild sjúkrahússins á umræddu tímabili, en látin laus í bæði skiptin án ákæru. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV