Arabíska flugfélagið Emirates, sem gert er út í Dúbaí, tilkynnti í dag að tap á rekstrinum á öðrum og þriðja ársfjórðungi hafi numið 3,4 milljörðum dollara. Þetta er í fyrsta sinn í meira en þrjá áratugi sem fyrirtækið er rekið með tapi.
Sjeik Ahmed bin Saeed Al Maktoum, forstjóri og stjórnarformaður Emirates, segir í yfirlýsingu að vegna heimsfaraldursins sé erfitt að spá fyrir um rekstrarhorfurnar á næstunni. Nýjar fréttir af bóluefni gegn kórónuveirunni veki þó vonir um að ástandið í flugrekstri eigi eftir að batna skjótt.
Flugfloti Emirates flutti eina og hálfa milljón farþega á öðrum ársfjórðungi, 95 prósentum færri en á sama tíma í fyrra.