Hettumáfsungi flaug á rúðu
Þórdís vann heima hjá sér í dag, eins og stór hluti Íslendinga, og heyrði skyndilega þrusk úr bakgarðinum. „Mér varð litið út á pall og þar lá lítill hvítur fugl. Þetta hefur komið fyrir áður að þeir fljúga á glerið,“ segir hún í samtali við fréttastofu.
Hún fór út og lagði fuglshræið á dagblað og dagblaðið upp á borð. „Ég ætlaði að sýna manninum mínum fuglshræið þegar hann kæmi heim,“ segir hún. „Þetta var sennilega ungur hettumáfur. Hann var lítill og hvítur með svolítið svart í fjöðrunum, “ bætir hún við.
Fálki hakkaði í sig fuglshræ í garðinum
Stuttu síðar heyrði hún svo aftur þrusk á pallinum. „Þá stendur þarna á pallinum fálki. Hann skoppaði upp tröppurnar og sat svolitla stund á pallinum, gaf sér góðan tíma í að spá í það hvort hann ætti að leggja í það að háma í sig hettumáfshræið. Svo tók hann sénsinn og byrjaði að hakka í sig fuglinn,“ segir Þórdís. Sjálf hafi hún staðið góða stund og horft á fálkann og tekið myndir en hann ekkert kippt sér upp við það.
„Hann át fuglinn alveg upp til agna. Svo þegar hann var búinn hoppaði hann upp á stólbak og sat þar í tíu mínútur. Svo gat hann ekki almennilega tekist á flug og hoppaði og flögraði inn í garð og var þar heillengi að reyna að takast á loft, en það tókst ekki,“ segir hún.