Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fluttu pakksaddan fálka úr bakgarðinum til dýralæknis

Mynd: Þórdís Bragadóttir / Þórdís Bragadóttir
Þórdís Bragadóttir fylgdist með fálka háma í sig hettumáfshræ í bakgarðinum heima hjá sér í Fossvogi í dag. Eftir máltíðina var fálkinn svo saddur að hann gat ekki hafið sig til flugs og sérstakur fuglavinur frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu flutti hann til dýralæknis. Fálkinn gistir í Húsdýragarðinum í nótt en verður frjáls ferða sinna aftur á morgun.

Hettumáfsungi flaug á rúðu

Þórdís vann heima hjá sér í dag, eins og stór hluti Íslendinga, og heyrði skyndilega þrusk úr bakgarðinum. „Mér varð litið út á pall og þar lá lítill hvítur fugl. Þetta hefur komið fyrir áður að þeir fljúga á glerið,“ segir hún í samtali við fréttastofu. 

Hún fór út og lagði fuglshræið á dagblað og dagblaðið upp á borð. „Ég ætlaði að sýna manninum mínum fuglshræið þegar hann kæmi heim,“ segir hún. „Þetta var sennilega ungur hettumáfur. Hann var lítill og hvítur með svolítið svart í fjöðrunum, “ bætir hún við. 

Fálki hakkaði í sig fuglshræ í garðinum

Stuttu síðar heyrði hún svo aftur þrusk á pallinum. „Þá stendur þarna á pallinum fálki. Hann skoppaði upp tröppurnar og sat svolitla stund á pallinum, gaf sér góðan tíma í að spá í það hvort hann ætti að leggja í það að háma í sig hettumáfshræið. Svo tók hann sénsinn og byrjaði að hakka í sig fuglinn,“ segir Þórdís. Sjálf hafi hún staðið góða stund og horft á fálkann og tekið myndir en hann ekkert kippt sér upp við það. 

„Hann át fuglinn alveg upp til agna. Svo þegar hann var búinn hoppaði hann upp á stólbak og sat þar í tíu mínútur. Svo gat hann ekki almennilega tekist á flug og hoppaði og flögraði inn í garð og var þar heillengi að reyna að takast á loft, en það tókst ekki,“ segir hún.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Bragadóttir

Fuglavinur frá lögreglunni flutti fálkann til læknis

Þá hafi hún ákveðið að hafa samband við lögregluna. „Þeir sendu lögreglumann sem er mikill fuglavinur og hefur bjargað fuglum. Og hann kom inn í garðinn og lagði teppi yfir fálkann og fór með hann til dýralæknis. Þar var honum víst sagt að stundum þegar fuglar borðuðu of mikið yrðu þeir of þungir til að hafa sig á flug,“ segir Þórdís. 

Fálkinn var úrskurðaður hraustur, en saddur, af dýralækni. Þórdís segir að lögreglumaðurinn hafi farið með hann í húsdýragarðinn þar sem hann gisti í nótt. „Svo verður honum sleppt á morgun,“ segir hún að lokum.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórdís Bragadóttir
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV