Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Fjögur bóluefni sem Ísland bíður eftir

epa08814066 An undated handout made available by the German pharmaceutical company Biontec shows a hand holding an ampoule with BNT162b2, the mRNA-based vaccine candidate against COVID-19, in Mainz, Germany. Pfizer and Biontech SE  announced on 11 November 2020 that they have reached an agreement with the European Commission to supply 200 million doses of their investigational BNT162b2 mRNA-based vaccine candidate against COVID-19 to European Union (EU) Member States, with an option for the European Commission to request an additional 100 million doses.  EPA-EFE/BIONTECH SE / HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - BIONTECH SE
Íslandi hefur verið tryggður aðgangur að nokkrum bóluefnum sem í þróun eru gegn COVID-19 innan samkomulags sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hefur gert við fjóra framleiðendur bóluefnis. Þau eru mislangt komin í þróun og velta kaupsamningarnir á því að þau hljóti samþykki lyfjaeftirlitsstofnana um heim allan.

Samkvæmt vef Stjórnarráðsins er gert ráð fyrir að hérlendis þurfi um 550 þúsund skammta af bóluefni til að bólusetja 75% þjóðarinnar og ná fullnægjandi hjarðónæmi, en miðað er við að hver Íslendingur verði bólusettur tvisvar. Ísland mun kaupa bóluefni á grundvelli samninga framkvæmdastjórnar ESB við lyfjaframleiðendur og hefur Svíþjóð milligöngu um að framselja Íslendingum bóluefni.

„Það er fyrst núna að mínu mati sem við getum raunverulega farið að eygja til lands hvað varðar bólusetningu gegn COVID-19 þó að margar niðurstöður eigi eftir að koma út úr rannsóknum á þessum bóluefnum, sem setja hugsanlega strik í reikninginn,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á upplýsingafundi almannavarna og landlæknis í dag. Hann var vongóður um að bólusetningar gegn farsóttinni gætu hafist snemma á næsta ári.

Pfizer og BioNTech

Í gær var undirritaður samningur milli framkvæmdastjórnar ESB og bandaríska lyfjafyrirtækisins Pfizer um kaup á 200 milljónum skammta af bóluefni sem þróað er af þýska lyfjaþróunarfyrirtækinu BioNTech. Mögulegt er að kaupa 100 milljón skammta til viðbótar. Pfizer gerir ráð fyrir að framleiða allt að því 50 milljón skammta á þessu ári og um 1,3 milljarða á því næsta. 

Samkvæmt gögnum Pfizer úr þriðja fasa rannsóknar á bóluefninu lofar það góðu og kemur í veg fyrir COVID-19 smit í 90% tilfella hjá þeim sem ekki hafa greinst með smit áður. Hver einstaklingur þarf að fá bóluefnið tvisvar.

Janssen Pharmaceutica

Janssen Pharmaceutica NV, belgískt dótturfyrirtæki bandaríska lyfjafyrirtækisins Johnson & Johnson, einnig hefur gert samning við framkvæmdastjórn ESB um kaup á bóluefni. Sá var undirritaður 8. október. Gangi tilraunir vel og það fær samþykki lyfjaeftirlitsstofnana eru kaup tryggð á 200 milljón skömmtum, með möguleika á öðrum eins fjölda til viðbótar.

Samkvæmt frétt á vef Stjórnarráðsins fá lágtekjuríki hugsanlega skammta af efninu. Þriðji fasi tilrauna bóluefnisins stendur nú yfir og taka um 60 þúsund heilbrigðir einstaklingar þátt í þeim. Tilraunum var frestað um tíma vegna atviks sem kom upp við prófanir. Í ljós kom við frekari eftirgrennslan að atvikið tengdist bóluefninu ekki og því mátu lyfjaeftirlitsstofnanir öruggt að halda þeim áfram að því er segir í frétt danska ríkisútvarpsins DR.

AstraZeneca

Bresk-sænska lyfjafyrirtækið AstraZeneca og framkvæmdastjórn ESB undirrituðu samkomulag um kaup á bóluefni 14. ágúst. Það tryggir afhendingu á 300 milljón skömmtum, með möguleika á 100 milljón til viðbótar. 23. október greindi fyrirtækið frá því að tilraunir með bóluefnið hefðu hafist að nýju eftir að lyfjaeftirlitsstofnanir í nokkrum löndum, meðal annars Bretlandi og Bandaríkjunum, veittu heimild fyrir áframhaldandi tilraunum. Þróun þess er í samstarfi við Oxford-háskóla á Englandi.

Sanofi og GSK

Lyfjafyrirtækin Sanofi og GSK og framkvæmdastjórn ESB skrifuðu undir kaupsamning á 300 milljón skömmtum af bóluefni 31. júlí. Fyrirtækin þróa nú tvær gerðir bóluefnis og gera ráð fyrir að framleiða milljarð skammta á næsta ári. Búist er við að þriðji fasi tilrauna með bóluefnin tvö hefjist fyrir lok árs.