Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Bóluefni ætti að berast á tveimur dögum

12.11.2020 - 22:24
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Það ætti ekki að taka nema tvo daga að flytja bóluefni við kórónuveirunni frá framleiðslustað í Bandaríkjunum á áfangastað hér á landi. Þetta segir framkvæmdastjóri Controlant sem sérhæfir sig í tæknilausnum í flutningi viðkvæmra vara.

Bólefni Pfizer við kórónuveirunni er framleitt í Bandaríkjunum. Geyma þarf það í áttatíu stiga frosti svo það skemmist ekki. Fyrirtækið Controlant í Kópavogi hefur þróað tækni, hitaskynjara, sem lætur vita breytist hitastig á meðan vörur eru fluttar.

„Það er alltaf tryggt að hitastigið sé í lagi til landsins í allri geymslu og síðan í innanlandsflutningi,“ segir Gísli Herjólfsson, framkvæmdastjóri Controlant.

Bóluefninu frá Pfizer verður haldið frosnu með þurrís, sem er frosinn koltvísýringur. 

„Þær aðferðir sem hafa nú verið þróaðar fyrir COVID-bóluefnin eru að umbúðir með þurrís ná að viðhalda hitastiginu í allt að tíu daga,“ segir Gísli.

Þá verður bólefnið flutt með hraðflutningum og tekur flutningurinn ekki meira en þrjá daga.

„Og þar fyrir utan er líka möguleiki á að bæta á þurrís á vissum stöðum. Þannig að upprunalega boxið sem lyfið fer í getur alveg dugað alveg þangað til sjúklingurinn fær það,“ segir Gísli.

En hve langan tíma tekur að flytja bóluefni frá Pfizer til Íslands?

„Ég myndi halda að það væri tvo daga á leiðinni,“ segir Gísli.

Sérðu fyrir þér að það yrði framkvæmanlegt að flytja bóluefni sem þarf að vera í svo miklu frosti á allar heilsugæslustöðvar landsins þannig að það sé nothæft þegar á að nota það og spraut í fólk?

„Já, alla vega miðað við þá ferla sem ég þekki og hvernig lyfjafyrirtækin eru að gera, þá er það einmitt ætlunin að þessu verði dreift á spítala og heilsugæslustöðvar á heimsvísu,“ segir Gísli.