Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Útilokað að saka innflytjendur osta um lögbrot

Mynd með færslu
 Mynd: Pixabay - pexels.com
Ólafur Stephensen framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda segir þau fyrirtæki innan raða FA, sem hafa flutt inn pitsuosta með jurtaolíu hafi fylgt leiðbeiningum og ákvörðunum tollayfirvalda um tollflokkun. Þannig sé útilokað að saka þau um tollasvindl, smygl eða önnur lögbrot.

Undanfarið hefur verið mikið fjallað um misræmi í tölum Evrópusambandsins og tölum íslenskra stjórnvalda um út- og innflutning á búvörum. Innflytjendur hafa jafnvel verið sakaðir um misferli og ástundun smygls.

Á árunum 2017 til 2019 hafi verið flutt 21% meira af mjólkurvörum til Íslands en íslensk tollayfirvöld hefðu skráð segir í minnisblaði starfshóps á vegum fjármálaráðuneytisins.

Starfshópurinn komst að þeirri niðurstöðu að vara geti verið flokkuð með ólíkum hætti milli landa eða mistök eða vanþekking gætu hafa valdið skráningu rangs tollskrárnúmers.

Þriðja skýringin, segir í minnisblaðinu, gæti verið ásetningur til að komast hjá greiðslu aðflutningsgjalda. Í yfirlýsingu Félags atvinnurekenda segir að upplýsingaöflun leiði í ljós að íslenskir framleiðendur bjóði enga sambærilega vöru við jurtablandaða pitsaostinn.

Jafnframt hafi allur slíkur ostur verið fluttur út og inn á sömu tollnúmerum. Haft er eftir Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra sem sagði á þingi 22. október síðastliðinn „erfitt að halda fram að menn hafi verið að misnota kerfið þegar tollurinn hafði skoðun á því að varan ætti heima þar sem hún var flokkuð.“

Ólafur Stephensen segir afstöðu Félags atvinnurekenda skýra um að tollasvindl sé ólíðandi. „Engin leið er að kalla þann innflutning, sem hér um ræðir, því nafni,“ segir hann.

Slíkur ostur verði, með jurtaolíuíblönduninni, tollfrjáls og það hafi verið með fullu samþykki og vitneskju tollyfirvalda, segir í yfirlýsingu frá Félagi atvinnurekenda. Það sé í fullu samræmi við alþjóðareglur.

Á hinn bóginn hafi Bændasamtök Íslands, Landssamband kúabænda og Mjólkursamsalan farið fram á frá því verði fallið. Fjármálaráðuneytið hafi tekið að hluta undir það. Fari svo er viðbúið að verð pitsuosta hækki talsvert.