Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Þyrla notuð við lagfæringar á aldagamalli gönguleið

Þyrla var nýtt til efnisflutninga svo hlífa mætti viðkvæmu og friðuðu hrauni við endurbætur á gönguleið á milli í þjóðgarðinum Snæfellsjökli.

Gönguleiðin á milli Arnarstapa og Hellna er aldagömul þjóðleið. Aukinn ágangur síðustu ára hefur orðið til þess að þörf var orðin á að byggja leiðina upp að nýju. Hellnahraun, sem leiðin liggur um, er friðað og aðkoma þröng. 

„Við þurfum að fara mjög varlega í að laga svona leiðir. við getum ekki tekið nein tæki og tól inn þannig þetta er allt handunnið og við flytjum allt efni inn. Það litla sem við þurfum að flytja inn, það flytjum við inn með þyrlu,“ segir Jón Björnsson þjóðgarðsvörður. 

„Í gamla daga hefðu menn flutt efnið á hestum. Annað hvort í sekkjum eða dregið það. Eða á vögnum ef það hefði verið til. En nú höfum við bara fuglinn Fönix til þess að flytja efnið fyrir okkur,“ segir Guðjón Kristinsson hleðslumeistari. 

Haldið er í aldagamlar hleðsluaðferðir og handbragð við verkið. 

„Þetta er flókið því við erum að reyna að viðhalda eins litlu inngripi og við getum. Þetta er gömul upphlaðin leið hérna inni í hrauninu og okkar verk er að reyna að endurheimta og laga hana í sama stíl og hún var gerð,“ segir Gunnar Guðjónsson landslagsarkitekt. 

Byrjað var á að búa um og hlaða stíginn áður en þyrlan var kölluð til leiks. Leikni þarf til flugsins en þyrlan fer um áttatíu ferðir með efni til stígagerðarinnar. Hún flytur um hálfan rúmmetra af efni í hverri ferð. 

Handverkið er aldagamalt, en reynist vel, og því ekki búist við að þurfi að endurtaka verkið í bráð. 

„Það er ekki að ástæðulausu að fólk tórði hér í þúsund ár í kofum og við djöfullegustu aðstæður sem hugsast getur. Samt bara með ljá, hníf og exi gátu þeir byggt hús sem var þægilegt að vera í. Hlý og notaleg,“ segir Guðjón. 

Og þetta nýtist enn í dag?

„Já, bara á annan hátt.“