Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Þýðing skipsdagbókarinnar mikil fyrir úrlausn málsins

Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV
Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, segir lykilatriði að skipsdagbók togarans Júlíusar Geirmundssonar verði lögð fram við sjópróf vegna COVID-19 hópsmits um borð. Hann segir fyrirhugað að halda sjóprófið á Ísafirði 23. nóvember næstkomandi.

Árni, sem var til viðtals í þættinum Samfélagið á Rás 1, segir héraðsdómslögmann hafa skorað á þá sem hafi dagbókina undir höndum að afhenda hana eigi síðar en næstkomandi föstudag.  Áður hefur komið fram að útgerðin hafi fært lögreglu bókina í hendur. 

Grunngagn á borð við svarta kassann í flugvélum

Skipsdagbók er grunngagn sem leitað er fanga í komi eitthvað fyrir úti á sjó að sögn Árna. Allt það sem ástæða þykir til, sé fært til bókar, yfirleitt fremur þægileg lesning um veðurfar og aflabrögð.

Hins vegar hafi skipsdagbókin svipað vægi og svarti kassinn í flugvélum,  gerist eitthvað það um borð sem geti haft eftirmál. Betra sé að skrifa meira en minna í hana. Mikil áhersla sé lögð á að skipstjórnarmenn færi allt sem gerist til bókar, algengast sé að stýrimenn annist það en ábyrgðin sé þó skipstjórans.

Árni kveðst ekki minnast þess að það hafi áður gerst að skipsdagbókin fáist ekki afhent en mörg stéttarfélög, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna, hafi verið samstíga í því að kalla eftir henni.

Farsælast fyrir alla að skipsdagbókin verði lögð fram

Hann segir farsælast fyrir alla að bókin og það sem í henni stendur verði borin undir réttinn og kveðst vona að þar standi eitthvað það sem skýrir atburðarásina þegar fjöldi skipverja veiktist um borð í togaranum.

Reynist svo ekki vera segir Árni það jafnvel vera enn alvarlegra mál. Heyra má á máli Árna að hann er efins um að persónuverndarlög hafi meira vægi en sjómannalögin frá 1985, þótt þau fyrrnefndu séu yngri.

Þó kveður hann að alveg megi hugsa sér að sjómannalög verði uppfærð, enda orðin roskin. Í 49. grein laganna segir til að mynda að skipstjóri hafi í öllum efnum hið æðsta vald á skipinu, en með nútímatækni séu teknar ákvarðanir um öll mikilvæg mál í samráði við útgerðina.

Árni Bjarnason bendir jafnframt á að samkvæmt fyrstu málsgrein 45. greinar sjómannalaga geti útgerðin vikið skipstjóra úr stöðu hans hvenær sem er, því sé ekki sjálfgefið að hann taki ábyrgðina á svona atburðum.