Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Þetta er bara algjör hryllingur“

11.11.2020 - 20:39
„Maður er alveg sleginn eftir að hafa heyrt þessar fréttir og séð og lesið þessi skjöl,“ segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, um frásagnir starfsfólks í Arnarholti sem fjallað var um í fréttum RÚV í kvöld og í gærkvöld. Héðinn var gestur Einars Þorsteinssonar í Kastljósi í kvöld.

„Þetta endurspeglar ríkjandi viðhorf og hugmyndir og orðræðu þess tíma en engu að síður endurspeglast þarna þessi valdbeiting og afskiptaleysi. Það er bara vont að lesa þetta og sjá hvernig fram er komið við fólk á þessum tíma,“ segir Héðinn og líkir aðbúnaðnum á Arnarholti við aðbúnað fólks á geðsjúkrahúsum í Austur-Evrópu fyrr á tíðum. 

„Þetta er bara algjör hryllingur,“ segir Héðinn. „Við höfum alltaf verið að taka fólk út fyrir sviga en meðferðin sem þarna er lýst er bara ótrúleg,“ bætir hann við. 

Íhuga að kalla eftir úttekt 60-70 ár aftur í tímann

Líkt og fram kom í kvöldfréttum hefur Bryndís Snæbjörnsdóttir, formaður Þroskahjálpar, kallað eftir víðtækari rannsókn á fleiri stofnunum og Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur tekið undir að það sé þörf á slíkri rannsókn.

Héðinn segir frásagnirnar gefa tilefni til að hvetja stjórnvöld, ekki bara borgina, til þess að gera úttekt á þjónustu við fólk sem glímir við andlega erfiðleika 60-70 ár aftur í tímann. „Vistheimilanefnd sinnti börnum og ungmennum en ég tel rétt að skoða að senda inn áskorun þess efnis að stjórnvöld og borgaryfirvöld skoði að gera heildarúttekt við geðsjúkt fólk frá 1950 eða aftar og fram til dagsins í dag,“ segir hann, enda sé enn víða pottur brotinn í þjónustu við þá sem búa við geðrænar áskoranir. 

Sjálfur starfaði Héðinn á Kleppi á árunum 1995-1996 og segist minnast þess að hafa brugðið í brún þegar hann áttaði sig á því að lyfjum væri blandað í kaffi fólks án þess að það vissi af því. Þá hefði fólk jafnvel verið bundið við hjólastól og hjólastóllinn við hurð. 

Vilja helst prófa „útópíska lausn“ án þvingana

Geðhjálp hefur undanfarin ár lagt áherslu á að berjast gegn þvingun gegn andlega veiku fólki, svo sem sjálfræðissviptingu og nauðungarvistun. Aðspurður hvort frásagnirnar af Arnarholti speglist að einhverju leyti í meðferð á andlega veiku fólki í dag segir Héðinn ljóst að helst myndi Geðhjálp vilja prófa þá „útópísku lausn og vera með þvingunarlaust land í þrjú ár“. Sé það ekki hægt vilji þau þrengja rammann svo mikið, og hafa eftirlitið svo mikið, að leiðum nauðungar og þvingunar verði aðeins beitt í undantekningartilvikum, og helst alls ekki. 

„Og það er þess vegna sem við ýtum í stjórnvöld um að breyta lögræðislögunum, taka hegningarlög til endurskoðunar og taka heilbrigðislöggjöfina til endurskoðunar, og þar fram eftir götunum, til að bæta réttarstöðu þessara einstaklinga sem oft hafa fáa til að tala fyrir sig, ef nokkra,“ segir hann.