Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óska eftir upplýsingum um Arnarholtsmálið og leyndina

11.11.2020 - 21:16
Mynd með færslu
 Mynd: Silfrið - RÚV
„Það sem sjokkerar mig mest er að rannsóknin hafi átt sér stað og hafi verið sett ofan í skúffu og verið þar í fimmtíu ár,“ segir Helga Vala Helgadóttir, formaður velferðarnefndar Alþingis, um frásagnir starfsfólks Arnarholts um hryllilega meðferð á þeim sem þar dvöldu fyrir árið 1971. Fréttastofa hefur fjallað ítarlega um málið í sjónvarpsfréttum í kvöld og í gærkvöld.

„Þetta er auðvitað hryllilegt mál. Ég hef óskað eftir því að málið verði tekið fyrir á fundi velferðarnefndar á mánudag og hef stuðning minni hlutans í því. Ég, ásamt minni hlutanum, ætlum að óska eftir að fá upplýsingar um málið, bæði málið sjálft og hvers vegna það ríkti leynd yfir þessum skjölum,“ segir Helga Vala í samtali við fréttastofu. 

Aðspurð hvert hún búist við að slík beiðni verði send, segir hún það enn óljóst. „Það er nefnilega góð spurning. Þetta er það sem nefndarsvið er að skoða núna, hvaðan koma þessar upplýsingar og hvert leitum við, hvers vegna hvíldi leynd yfir þessu í fimmtíu ár, og allt það,“ segir hún. 

Svona á ekki að geta gerst

Spurð hvort hún telji frásagnirnar hafa einhverja skírskotun til nútímans segir hún að það sé mikilvægt að hafa augun vel opin. Hún nefnir að umboðsmaður Alþingis fari með svokallað OPCAT eftirlit með aðstæðum frelsissviptra. Embættið hafi því eftirlit með öllu því sem gerist inni á stofnunum þar sem fólk kann að vera frelsissvipt. Helga Vala segir að eftirlitið hafi verið sett af stað fyrir tveimur árum og nú sé viðvarandi eftirlit. „Það skiptir rosalega miklu máli, og svona uppákomur eiga ekki að geta átt sér stað. En svo auðvitað veit maður aldrei,“ segir hún. 

Að því er segir á vef umboðsmanns er OPCAT „valfrjáls bókun við samning Sameinuðu þjóðanna gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu“. Markmiðið með bókuninni er að koma á reglubundnum heimsóknum óháðra, alþjóðlegra og innlendra aðila þangað sem fólk er eða kann að vera svipt frelsi sínu, með það fyrir augum að koma í veg fyrir pyndingar og aðra illa meðferð þeirra.