Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Náðu ekki samkomulagi um stjórnarskrárbreytingar

11.11.2020 - 08:13
Bjarni Benediktsson í Kastljósi 10. nóvember 2020
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segist ekki búast við samkomulagi milli formanna þingflokkanna um breytingartillögur forsætisráðherra á stjórnarskrárákvæðum. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, styður þrjú af fjögur frumvörpum forsætisráðherra.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hyggst sjálf, sem þingmaður, leggja fram fjögur frumvörp um breytingar á stjórnarskrárákvæðum í þessum mánuði. Katrín kallaði formenn flokkanna til fundar um málið í gær. Bjarni Benediktsson segir ekki hafa verið einhug um breytingarnar á fundinum.

„Nei, mér fannst það ekki. Ágætis fundur svo sem en mér finnst ég vera búinn að eyða, eða verja, mjög miklum tíma í þetta mál á þessu kjörtímabili með litlum árangri um breiða samstöðu. Persónulega finnst mér skipta gríðarlega miklu máli þegar við erum að breyta grundvallarlögum í landinu að menn leggi mikið á sig til að ná sátt og það virðist ekki vera að takast,“ segir Bjarni.

Bjarni segist ekki búast við samkomulagi milli formanna þingflokkanna um breytingartillögurnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, lýsti því yfir í gær að hún verði flutningsmaður á þremur af fjórum frumvörpum Katrínar. Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur ekki viljað tjá afstöðu sína, Helgi Hrafn Gunnarsson, þingmaður Pírata, segir ekki unnt að styðja við frumvörp Katrínar eins og þau eru í dag og Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hyggst ekki styðja öll frumvörpin.

„Ég held að það sé komið fram að menn eru ekki að ná saman sem einhver hópur formanna að stjórnarskránni, því miður.  Ég held að forsætisráðherra hafi setið í þessum stól hérna um daginn og boðað þessa niðurstöðu og mér sýnist það koma fram á þessum fundi í dag. Ég hef verið þeirrar skoðunnar að við hefðum átt að einbeita okkur að fáum atriðum og það hefur verið reynt að einangra þessa vinnu við svona nokkur álitamál en þau eru hvert um sig mjög stór,“ segir Bjarni.