Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Krefjandi að flytja bóluefni í 80 stiga frosti

11.11.2020 - 22:48
Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Krefjandi verður að flytja kórónuveirubóluefni sem þarf að vera í áttatíu gráðu frosti á heilsugæslustöðvar um land allt. Þetta segir framkvæmdastjóri Distica sem sér um dreifingu á lyfjum frá Pfizer. Bóluefnið yrði þá flutt í þurrís líkt og gert er við sum lyf, fisk og sæði. 

Íslandi hefur verið tryggður aðgangur að bóluefni sem lyfjaframleiðandinn Pfizer hefur þróað við kórónuveirunni sem veldur COVID-19. Eitt flækir þó dreifingu á bóluefninu og það er að hafa þarf það í áttíu gráðu frosti í flutningi á áfangastað. Fyrirtækið Distica sér um dreifingu hér á landi á lyfjum frá Pfizer.

„Ég get ekki tjáð um einstaka bóluefni að svo stöddu en Distica mun sjá um dreifingu á COVID-bóluefnum þannig að við erum á fullu að undirbúa það eins og hægt er miðað við þær upplýsingar sem við höfum,“ segir Júlía Rós Atladóttir, framkvæmdastjóri Distica.

Viðbúið er að bóluefnið verði flutt í þurrís.

„Þurrís er koldíoxíð á föstu formi, unnið úr gasi,“ segir Eggert Eggertsson, gæðastjóri hjá Linde Gas ehf. sem framleiðir þurrís.

Þegar þurrísinn, eða frosni koltvísýringurinn, hitnar verður þurrgufun - hann breytist aftur í gas en verður ekki að vökva. Bóluefnið yrði væntanlega sett í kassa og ísinn ofan í.

„Vissulega er þetta krefjandi. Við erum vön að flytja bóluefni og lyf við annað hitastig en þetta. En þetta er ekkert sem er ekki leysanlegt og við erum farin að skoða alla möguleika í því,“ segir Júlía Rós.

„Það er áttatíu stiga frost í kassanum og það helst alveg í tvo sólarhringa. Ekkert mál. Mjög algengt að flytja vöru sem þarf á kulda að halda, hvort sem það er fiskur, lyf eða sæði, í koldíoxíði,“ segir Eggert.

Það myndi þó flækja málin að flytja bóluefnið yfir fjallvegi í mikilli ófærð með tilheyrandi töfum.

„Jú, svo eigum  við náttúrulega eftir að fá bara betri upplýsingar um það. Auðvitað verður bóluefninu ekki sprautað frosnu í okkur. Þannig að það mun einhver tími líða, við munum hafa einhverja daga,“ segir Júlía Rós.

Það er svo í höndum sóttvarnarlæknis að ákveða hvort bólusett verði á mörgum stöðum um allt land eða færri. En áður en að því kemur þarf Lyfjastofnun Evrópu að samþykkja bóluefnið.