Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hong Kong-þingmenn reknir vegna skorts á föðurlandsást

11.11.2020 - 06:37
Erlent · Asía · Hong Kong · Kína · Stjórnmál
epa08809359 Pan-democratic lawmakers attend a press conference at the Legislative Council in Hong Kong, China, 09 October 2020. The nineteen lawmakers threatened to resign en masse if Beijing moves to have any of them disqualified amid reports that the National People's Congress Standing Committee (NPCSC) was preparing to oust four of them.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
19 þingmenn lýðræðissinna hótuðu að segja af sér, allir sem einn, ef einhver úr þeirra röðum yrði rekinn af þingi á grundvelli nýrra laga sem krefur þingmenn um skilyrðislöausa föðurlandsást - í garð Kína. Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínversk stjórnvöld samþykktu í morgun lög sem kveða á um að föðurlandsást skuli vera ófrávíkjanleg skylda þingmanna í Hong Kong og skilyrði fyrir áframhaldandi setu þeirra á þingi þessa fyrrverandi sjálfstjórnarhéraðs. Lögin höfðu ekki fyrr öðlast gildi en stjórnvöld í Hong Kong sviptu fjóra þingmenn lýðræðis- og sjálfstæðissinna þingsætum sínum.

Áður höfðu allir 19 fulltrúar lýðræðissinna á þessu 70 manna þingi hótað afsögn, yrði einhverjum þeirra vísað af þingi. Sá gjörningur á að endurspegla samstöðu þeirra og sýna hversu langt Peking-stjórnin er tilbúin að ganga til að bæla niður hvers kyns andstöðu.

Nýja löggjöfin, segja þeir, markar formleg endalok fyrirheitsins um „eitt ríki, tvö kerfi“ sem gefið var þegar Bretar skiluðu völdunum í borgríkinu í hendur Kínverjum 1997. Það gekk út á að þótt Hong Kong myndi eftir það tilheyra Kína að fullu og öllu, þá skyldi þessi risavaxna fjármála- og viðskiptamiðstöð halda sjálfstæði sínu að miklu leyti og setja sér eigin reglur.

Síðustu ár hefur farið æ minna fyrir efndum á þessu loforði með sívaxandi afskiptum kínverskra stjórnvalda af stjórnarfari og daglegu lífi almennings í þessari fyrrverandi nýlendu Breta og æ harðari aðgerðum til að bæla niður hvers kyns sjálfstæðis- og lýðræðistilburði þar í borg.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV