Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Fjöldi kaupsamninga ekki verið meiri í þrettán ár

11.11.2020 - 09:07
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Mikið líf hefur verið á fasteignamarkaði hér á landi undanfarna mánuði þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn og efnahagskreppu. Í nýrri skýrslu hagdeildar Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar kemur fram að í kjölfar afléttingar samkomubanns og lækkunar vaxta Seðlabankans í vor hafi lifnað verulega yfir fasteignamarkaðnum og síðan þá hafi fasteignaviðskipti verið í hæstu hæðum.

Júlí var metmánuður í fjölda útgefinna kaupsamninga en þeir hafa ekki verið fleiri síðan 2007. Þá er búist við því að septembermánuður slái þeim fjölda við. Það sem af er ári hefur fjöldi kaupsamninga aukist um 9 prósent miðað við sama tímabil í fyrra. Söluverð íbúða hefur sömuleiðis hækkað það sem af er ári og er meðaltalshækkunin á höfuðborgarsvæðinu um 3,7 prósent.

Þá hefur hlutfall fyrstu kaupenda aldrei verið hærra. Rúmlega þrjátíu prósent fasteignakaupa á landinu öllu voru fyrstu kaup á þriðja ársfjórðungi þessa árs.