Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

COVID-fríum ríkjum fækkaði um eitt í gær

11.11.2020 - 04:03
epa08811780 A Healthcare worker, wearing a protective suit, performs a Covid-19 swab test at the Roma Termini Binario95 social hub test center, during the Coronavirus Covid-19 pandemic emergency in Rome, Italy, 10 November 2020. The social hub Binario95, located at the central Roma Termini station, provides coronavirus tests for homeless people, care workers and volunteers.  EPA-EFE/ANGELO CARCONI  ATTENTION: This Image is part of a PHOTO SET
 Mynd: EPA-EFE - ANSA
Þeim ríkjum sem laus eru við COVID-19 hefur fækkað um eitt, því heilbrigðisyfirvöld á Kyrrahafseyríkinu Vanúatú greindu frá því nú í morgunsárið að þar hefði fyrsta tilfellið verið staðfest í gær. Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneyti Vanúatú segir að 23 ára karlmaður, nýkominn frá Bandaríkjunum, hefði greinst með veiruna.

Hann var í heimkomusóttkví þegar smitið greindist og „smit sem greinist í sóttkví er flokkað sem landamæratilfelli en ekki uppkoma farsóttar“ segir í tilkynningu ráðuneytisins. Þar segir ennfremur að gripið hafi verið til allra viðeigandi ráðstafana til að hindra að kórónaveiran sem veldur COVID-19 berist út í samfélagið.

Maðurinn, sem sagður er einkennalaus, hafi verið einangraður frá öðrum farþegum í flugferðinni til eyjunnar, þar sem hann var að koma frá há-áhættusvæði. Hann hafi líka virt allar reglur um nálægðarmörk eftir að hann steig fæti á Vanúatú, og nú sé unnið að því að hafa uppi á og skima öll sem hann hefði átt í samskiptum við í flugferðinni og eftir hana.

Mörg eyríki á Kyrrahafi skelltu í lás í vetur

Yfirvöld á Vanúatú lokuðu á allt farþegaflug og -siglingar til landsins strax í mars, til að halda farsóttinni fjarri. Nýverið var svo opnað fyrir heimflug Vanúatúa að utan, að uppfylltum ströngum skilyrðum.

Fleiri Kyrrahafseyríki lokuðu sínum landamærum þegar farsóttin fór á flug í vetur sem leið og eru Kíribatí, Míkrónesía, Naúrú, Palaú, Samóa, Tonga og Túvalú enn laus við COVID-19 eftir því sem best er vitað.

Fyrstu tilfellin greindust á Salómons- og Marshalleyjum í október. Þar voru hin smituðu líka í heimkomusóttkví þegar þau greindust, rétt eins og á Vanúatú, og ekki vitað til þess að veiran hafi borist út í samfélagið. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV