Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Vill opna þjóðgarð á Vestfjörðum 17. júní 2021

10.11.2020 - 10:51
Mynd með færslu
 Mynd: Jóhannes Jónsson - RÚV
Umhverfis- og auðlindaráðherra vill stofna þjóðgarð á Vestfjörðum. Unnið er að útfærslu hans og er stefnt á að hann verði opnaður 17. júní á næsta ári.

Áformaður þjóðgarður yrði sá fyrsti á Vestfjarðakjálka. Innan hans yrðu náttúruvættin tvö, Dynjandi og Surtarbrandsgil. Einnig Vatnsfjörður, sem var friðaður 1975 og Geirþjófsfjörður, sögusvið Gísla sögu Súrssonar. Einnig Hrafnseyri við Arnarfjörð, fæðingarstaður Jóns Sigurðssonar. 

„Þarna blandast saman þættir sem horft er til þegar stofnaðir eru þjóðgarðar. Bæði einstök náttúru og svo líka saga og menning,“ segir Guðmundur I. Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra. 

Sjá tækifæri í þjóðgarði

Rebekka Hilmarsdóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar segir sveitarfélagið sjá tækifæri í fyrirhuguðum þjóðgarði. Hægt verði að ráðast í uppbyggingu sem hefur þurft að bíða. 

„Okkur hefur sárlega fundist vanta aukið fjármagn í stígagerð og annað. Þannig að við teljum heilmikið tækifæri í þessu. Líka til þess að kynna þessa fallegu staði sem eru hérna allt í kringum okkur.“

Vilja tryggja að þjóðgarður hamli ekki uppbyggingu innviða

Hún segir þó nauðsynlegt að þjóðgarður hamli ekki uppbyggingu. Þar á meðal fyrirhuguðum heilsársvegi um Dynjandisheiði. 

„Það náttúrulega vakir fyrir öllum hér að eðlileg uppbygging innviða geti átt sér stað þótt það sé innan vébanda þjóðgarðs.“

Ráðherra segir að uppbygging og þjóðgarður geti vel farið saman. Víða séu uppbyggðir vegir í þjóðgörðum landsins.

„Það þarf bara að passa upp á það að reynt sé að lágmarka rask eins og mögulegt er og að vegurinn passi sem best inn í það landslag sem fyrir hendi er.“

Stefnt er að því að vígja þjóðgarð á sunnanverðum Vestfjörðum 17. júní 2021.

„Ég bara vonast til þess að við náum að vinna eftir þessu plani hratt og örugglega, en það verður svo sannarlega vandað til verka,“ segir Guðmundur.

Mynd með færslu