Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Viðspyrnustyrkir fram á mitt næsta ár

10.11.2020 - 21:21
Mynd: Skjáskot / RÚV
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir fregnir af 90% öryggi bóluefnis gegn COVID-19 ljós í myrkrinu og ofboðslega gleðileg tíðindi. Viðspyrnustyrkir sem stjórnvöld samþykktu í liðinni viku verða í gildi fram á mitt næsta ár.

„Við erum að leggja upp með það að styðja fyrirtæki sem þurfa áfram á stuðningi stjórnvalda að halda, [...] ef þau hafa orðið fyrir tekjuhruni eða vegna þess að tekjufallið er umtalsvert,“ sagði Bjarni í Kastljósi í kvöld.

Um ræðir mánaðarlegar greiðslur til að hjálpa fyrirtækjum að  standa undir rekstrarkostnaði. „Við trúum því að með þessu getum við tryggt að það sé sterkari viðspyrna til staðar þegar þessu ástandi lýkur.“ Úrræðið gagnast helst minni fyrirtækjum og meðalstórum.

Hver er verðmiðinn á þessu?

„Við erum að gera ráð fyrir því að ytri mörkin á þessu gætu legið í kringum 15 - 20 milljarðar, ég held hins vegar að það sé ekki tímabært að úttala sig um það, sagði Bjarni. 

Upphæðin sé þó nokkuð hærri fjárhæð en boðuð var þegar kjarasamningar voru á viðkvæmum tímapunkti, sagði Bjarni. Ríkisstjórnin gaf þá út yfirlýsingu um stuðning við fyrirtæki og voru 6 milljarðar nefndir í því samhengi.“

Heldur í þá trú að bankarnir sjá virðið í því að standa með sínum viðskiptamönnum

„Mér fannst bankarnir stíga mjög sterkt inn í upphafi og veita mikið svigrúm við ofboðslega óvissu. Ég sé ekki  betur en að viðskiptavinir bankanna hafi fengið mjög rúmar heimildir til þess að slá á frest afborgunum og vaxtagreiðslum. 

Við tekur haustið og útlitið fram undan, ég er ekki alveg kominn með tilfinningu fyri því hvernig bankarnir eru að sinna sínum viðskiptamönnum. Ég segi það er gríðarlega mikilvægt að bankarnir komi sterkt inn og standi með sínum viðskiptamönnum.

 

„Verið að hreyfa mjög eðlilegum sjónarmiðum hérna“

Bjarni varaði mjög alvarlega við því að skoðanir sem veltu upp áleitnum spurningum um sóttvarnarráðstafanir væru slegnar niður. Hann sagði gagnrýni flokksmanna sinna á þær mjög eðlilegar og spurningar um hversu langt sé hægt að ganga miðað við það ástand sem er glímt við hverju sinni vakni þegar hart sé gengið fram.

Ekki samstaða um frumvörp til breytinga á stjórnarskrá

Bjarni fundaði með þingflokksformönnum í dag um frumvörp sem Katrín Jakobsdóttir hyggst leggja fyrir þingið um breytingar á stjórnarskrá.

„Ég held það sé nú komið fram að við erum ekki að ná saman. Ég hef verið þeirrar skoðunar að við hefðum átt að einbeita okkur að fáum atriðum og það hefur verið reynt að einangra þessa vinnu við nokkur álitamál. Þau eru hvert um sig mjög stór. Mér finnst ég vera búinn að verja mjög miklum tíma í þetta mál á þessu kjörtímabili með litlum árangri um breiða samstöðu.“