Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Umsóknum hælisleitenda fækkar um fjórtán prósent

10.11.2020 - 12:43
Hælisleitendur á gangi að Víðinesi.
Hælisleitendur á gangi að Víðinesi. Mynd: RÚV
Umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi hefur fækkað um fjórtán prósent það sem af er þessu ári, samanborið við sama tímabil í fyrra. Málsmeðferðartími hefur styst og málum í vinnslu fækkað.

Samhliða því að komum ferðamanna hingað til lands hefur fækkað mikið í faraldrinum, hefur komum hælisleitenda einnig fækkað. Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun fækkaði umsækjendum um vernd mjög mikið á tímabilinu frá 20. mars til 15. júní, þegar lítið var um flugsamgöngur vegna ferðatakmarkana. Í apríl og maí bárust aðeins 10 umsóknir, en þeim fór svo að fjölga að nýju.

Á fyrstu 10 mánuðum þessa árs voru umsóknir um vernd 596 en á sama tímabili í fyrra sóttu 697 um vernd. Það hafa því borist um 14% færri umsóknir um vernd það sem af er þessu ári samanborið við sama tímabil í fyrra.

Flestir frá Palestínu og Írak

Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er þetta minni fækkun á milli ára en í nágrannalöndum okkar, þar sem umsóknum virðist ekki hafa fjölgað jafn hratt aftur eins og hér á landi, eftir að ferðatakmörkunum innan Schengen-svæðisins var aflétt. Frá því að umsóknum fór að fjölga á ný hefur langstærstur hluti umsækjenda hér á landi verið Palestínumenn og Írakar sem eru þegar búnir að fá alþjóðlega vernd í öðru Evrópulandi og geta því ferðast hingað án hindrana.

Þá segir í svari Útlendingastofnunar að þrátt fyrir að umsóknum hafi ekki fækkað meira en raun ber vitni, og þrátt fyrir að stofnunin hafi í mars afturkallað ákvarðanir sem búið var að taka í um 60 málum á grundvelli Dyflinnarsamningins og verndar í öðru Evrópuríki og tekið þau til efnislegrar meðferðar út af breyttu mati vegna covid faraldursins, þá hafi málsmeðferðartími styst þónokkuð og málum í vinnslu fækkað.

„Þá hefur Útlendingastofnun þurft að grípa til ýmissa ráðstafana til að tryggja sóttvarnir, bæði í búsetuúrræðum umsækjenda en einnig á starfsstöðvum. Það eru brýnir hagsmunir umsækjenda að þeir þurfi ekki að bíða lengur en nauðsynlegt er eftir svari varðandi umsókn sína og því hefur stofnunin lagt á það ríka áherslu að viðtöl séu áfram tekin við umsækjendur og afgreiðslu umsókna haldið áfram,“ segir í svari stofnunarinnar.