Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Umferðarslysum hefur fækkað um 30%

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Umferðarslysum á Suðurlandi hefur fækkað um þrjátíu prósent síðan faraldurinn braust út. Lögreglan hefur haft meira svigrúm til þess að sinna hvers konar sóttvarnaeftirliti í staðinn.

„Við sjáum það auðvitað að straumur ferðamanna er töluvert mikið minni en hann hefur verið síðustu ár þannig að umferðin er miklu minni. Og við sjáum það í þessari fækkun óhappa og umferðarlagabrota að umferðin er að minnka,“ segir Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi.

Ökumenn fari varlega

Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2019 urðu 555 óhöpp í umferðinni á Suðurlandi, þar af 113 þar sem slys urðu á fólki. Á fyrstu tíu mánuðum þessa árs hafa orðið 392 óhöpp, þar af 78 þar sem fólk slasaðist. Slysum hefur því fækkað um 30%. 

Þá hefur umferðalagabrotum einnig fækkað mikið.

„Þeim fækkar líka að sama skapi,“ segir Sveinn Kristján. „Og það er þessi sama skýring, að ferðamaðurinn er minna á ferðinni. En Íslendingurinn er samt drjúgur að safna inn brotum þannig að fólk má alveg hafa það í huga að fara varlega.“

Vandræði með viðskiptavini

Sveinn Kristján segir að þar sem lögreglan þurfi nú ekki að sinna eins mörgum umferðar-tengdum verkefnum og venjulega, geti hún einbeitt sér að öðru, til dæmis eftirliti með  sóttvörnum.

Hvernig hefur gengið í þessu COVID-eftirliti? Það hafa borist fregnir frá Reykjavík, af vandamálum varðandi viðskiptavini í verslunum.

„Já við höfum því miður aðeins heyrt af því hérna líka að verslunareigendur og verslunarstjórar hafi verið í vandræðum með kúnna hérna á Suðurlandi. Þannig að við viljum beina því til fólks að fylgja þessum reglum. Þetta skiptir máli og það skiptir máli að við vinnum þetta öll saman,“ segir Sveinn Kristján.