Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Trúir ekki tölfræði um áhættuhópa í COVID

10.11.2020 - 10:23
Mynd: RÚV / RÚV
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist hafa sannfærst um það smátt og smátt að heimurinn hafi meira og minna farið ranga leið og sitji hugsanlega uppi með meira tjón en forðast á með sóttvarnaaðgerðum vegna COVID-19. Hann vill að sóttvarnaaðgerðir beinist fyrst og fremst að þeim sem eru í áhættuhópum en kveðst ekki kaupa tölur heilbrigðisyfirvalda um að það sé um fimmtungur þjóðarinnar.

„Hverjir eru í raunverulegri hættu. Það eru bara þeir sem eru mjög aldraðir, mjög veikir fyrir. Aðrir eru bara ekkert í hættu. Flestir veikjast ekki neitt, aðrir mjög lítið. Svo erum við með mjög afmarkaðan hóp. Ég er bara að segja að ég er ekki viss um það að rétta leiðin sé þessar alvarlegu, íþyngjandi og almennu aðgerðir af þessu tagi sem hafa veruleg áhrif á líf og heilsu fólks,“ sagði Brynjar í morgunútvarpinu á Rás 2. „Það eru á þriðja tug þúsunda sem missa lífsviðurværi. Börn og ungmenni eru meira og minna í einhverri einangrun. Halda menn að þetta hafi ekki nein áhrif?“

Fram hefur komið í fréttum að fjölmargir hafa leitað til heilbrigðiskerfisins vegna eftirkasta COVID-19 veikinnar. Nokkrir voru byrjaðir í meðferð á Reykjalundi eða biðu þess að komast í meðferð þegar hópsmit á Landakoti breiddist þangað út.

Menn geta sagt hvað sem er

Sigmar Guðmundsson þáttastjórnandi vísaði til þess að fimmtungur landsmanna væri í áhættuhópum samkvæmt mati heilbrigðisyfirvalda. „Ég er ekki að kaupa þessa tölfræði heldur. Þú horfir á dánartíðnina og innlagnirnar þegar mest lætur. Það er enginn fimmtungur. Menn geta sagt hvað sem er. Það er svo auðvelt því við vitum ekkert hin,“ sagði Brynjar. Hann sagði að vernda ætti viðkvæma hópa, þeir gætu lokað sig af en hann teldi of gengið með almennum aðgerðum.

Brynjar sagðist skilja að fólk sem hugsaði aðeins um það að sporna gegn útbreiðslu veirunnar vildi loka öllu. Þá væri hins vegar ekki verið að hugsa um aðra hluti.