Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórólfur: „Þetta er bara mjög ánægjulegt“

10.11.2020 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Almannavarnir
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir niðurstöður rannsóknar á nýju bóluefni lofa góðu. Hann vonast til þess að aðrir bóluefnaframleiðendur geti komið með álíka fréttir fljótlega.

Bóluefni gegn kórónuveirunni sem lyfjafyrirtækin Pfizer og BioNTech hafa verið að þróa hefur skilað góðum árangri í 90 prósentum tilfella.

Þórólfur segir þetta bóluefni lofa góðu.

„Auðvitað eiga yfirvöld í Evrópu, þ.e. Lyfjastofnun Evrópu eftir að fara yfir þetta og skoða þetta betur en þetta er bara mjög ánægjulegt og ég vona að aðrir bóluefnaframleiðendur geti komið með álíka fréttir fljótlega,“ segir Þórólfur.

Ísland mun kaupa bóluefni á grundvelli samninga Evrópusambandsins við lyfjaframleiðendur og Svíþjóð hefur milligöngu um að framselja Íslendingum og Norðmönnum efni.

„Við erum ekki með samninginn við þennan framleiðanda. Við erum í samvinnu við Evrópusambandið. Það er búið að gera samning við tvo framleiðendur og mér skilst að það sé verið að gera samning við Pfizer þannig að væntanlega getum við setið að borðinu líka eins og aðrir þar. Það er mjög mikilvægt að hafa möguleika á bóluefni frá mörgum ef eitthvað bregður út af þannig að við stöndum ekki og föllum með einum framleiðanda,“ segir Þórólfur.

Hann treystir sér þó ekki til að svara því hvenær hægt verður að hefja bólusetningar hér á landi.

„Það fer eftir því hvenær þeir fá leyfi til að hefja framleiðslu og hvað þeir geta framleitt hratt. Þeir eru með áætlanir sjálfir eins og þeir hafa gefið út. Þeir eru með einhverja tugi milljóna skammta á þessu ári segja þeir og svo miklu fleiri á næsta ári. Við þurfum bara að sjá hvað samstarfið við Evrópusambandið skilar okkur mörgum skömmtum í þessu. En við áætlum að kaupa eitthvað 500 til 600 þúsund skammta hér á landi,“ segir Þórólfur.