Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Sjö handteknir grunaðir um fjársvik og peningafölsun

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu rannsakar nú umfangsmikið mál sem snýr að meintum fjársvikum og peningafölsun. Sjö voru handteknir vegna málsins í síðustu viku og færðir til yfirheyrslu lögreglu og lögreglan hefur í tvígang ráðist í húsleit í þágu rannsóknarinnar. Í tilkynningu sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér í dag kemur fram að grunur leiki á að skipulögð brotastarfsemi hafi átt sér stað.

Þeir handteknu eru grunaðir um að hafa ítrekað framvísað fölsuðum peningaseðlum og svikið út peninga með því að komast yfir greiðslukort og PIN-númer hjá viðskiptavinum öldurhúsa. Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, segist í samtali við fréttastofu ekki geta veitt frekari upplýsingar að svo stöddu.

Í tilkynningunni hvetur lögreglan fólk til að gæta að sér þegar PIN-númer eru slegin inn og eins að upplýsingar um PIN-númer séu ekki geymdar með greiðslukortum. Þá er því beint til starfsfólks við afgreiðslukassa að vera á varðbergi vegna falsaðra peningaseðla. Að lokum er fólk hvatt til þess að hafa samband við lögreglu hafi það upplýsingar sem gætu gagnast við rannsóknina:

Við minnum á upplýsingasíma lögreglu 800 5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um skipulagða brotastarfsemi, eða önnur brot sem fólk hefur vitneskju um. Ábendingum um brot má jafnframt koma á framfæri í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.