Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Sauma og sauma og sauma

10.11.2020 - 08:47
Mynd: Úlla Árdal / RÚV
Litla saumastofan á Akureyri hefur saumað mörg hundruð grímur eftir að grímuskylda tók gildi í skólum. Saumakonurnar segja það endurspeglast í verkefnum haustsins að fólk sé búið að vera heima að taka til í fataskápunum.

Þegar grímuskylda tók gildi í skólum varð mikil þörf á minni grímum fyrir börn. Litla saumastofan á Akureyri svaraði kallinu og fór að sauma. „Þetta er búið að vera miklu meira heldur en okkur datt í hug, við vorum alla helgina og erum búin að sitja og sauma og sauma,“ segir Anna Guðný Helgadóttir.

Þriggja laga og heilar að framan

Grímurnar séu orðnar nokkur hundruð. Og það þarf að fylgja öllum kúnstarinnar reglum. „Við þurfum að vera með antibakterial efni hérna á milli og þetta eru þrjú lög. Og svo höfum við hana heila hérna að framan þannig að það er ekkert sem ætti að koma hérna í gegn,“ segir Svava Guðrún Daðadóttir.

Efni uppseld hjá heildsölum

Þær segja yngstu kynslóðina spennta yfir hinum nýja hlífðarbúnaði og vilji vera eins og eldri systkini sín. Þær sauma því grímur niður í þriggja til fjögurra ára þannig að þau geti fengið að vera með. Og þær segja orðið erfitt að fá réttu efnin og teygjur. Það verði fljótt uppselt hjá heildsala þannig það þurfi að vera fljótur til. „Þetta efni fengum við sent á sunnudaginn með flugi, það kom til landsins á föstudaginn og var orðið uppselt á laugardaginn hjá heildsala,“ segir Svava.

Greinilega tiltekt í fataskápum

COVID hafi ekki haft mikil áhrif á reksturinn, það sé búið að vera mikið að gera en verkefnin hafi breyst og viðgerðir á gömlum fötum áberandi. Það virðist vera sem það sé búið að laga mikið til í fataskápum á Akureyri í haust enda sé komið með heilu pokana af einhverju gömlu sem eigi að breyta og laga. „Mánudagar eru pokadagarnir, þá er komið með alveg heilu pokana.“