Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Samþykktu kjarasamning með miklum meirihluta

10.11.2020 - 13:27
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist Jónsson - RÚV
Félagsmenn í verkalýðsfélögunum Hlíf og VR samþykktu nýjan kjarasamning við Rio Tinto í Straumsvík með ríflega 90 prósentum atkvæða. Atkvæðagreiðsla stóð yfir til klukkan 11 í morgun.

Alls tóku 152 félagsmenn þátt í atkvæðagreiðslunni en það eru um það bil 70 prósent þeirra sem voru á kjörskrá. Á sama tíma fór fram atkvæðagreiðsla um samning iðnaðarmanna í þremur verkalýðsfélögum, FIT, VM og Félagi íslenskra rafvirkja, við Rio Tinto. Iðnaðarmenn samþykktu samninginn einnig með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða.

Samningurinn var undirritaður í lok október og gildir til eins árs. Í stéttarfélögunum fimm eru um 400 starfsmenn Rio Tinto og samningar þeirra hafa verið lausir síðan í byrjun júlí. Upphaflega átti skæruverkfall að hefjast snemma í október til að knýja á um samninga, en verkfallinu var frestað eftir að félögin náðu samkomulagi við stjórnendur álversins. 

Kolbeinn Gunnarsson, formaður stéttarfélagsins Hlífar, hefur sagst ánægður með efni samningsins. Félögin hafi þó óskað eftir því að samningur yrði gerður til lengri tíma.