Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Samkomulag um stríðslok í Nagorno-Karabakh

10.11.2020 - 00:47
Mynd með færslu
 Mynd: Utanríkisráðuneyti Rússlands - Facebook
Nikol Pashinyan, forsætisráðherra Armeníu segist hafa undirritað sársaukafullt samkomulag við Rússa og Asera um stríðslok í Nagorno-Karabakh. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebooksíðu hans. Hann sagði undirritunina hafa verið óbærilega erfiða fyirr sig persónulega og fyrir þjóðina. Ilham Aliyev, forseti Aserbaísjans, segir Asera hafa neytt Pashinyan til að skrifa undir og samningurinn þýði í raun uppgjöf hans.

Samkvæmt samkomulaginu tók það gildi klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma. Þar með er endi bundinn á sex vikna átök sem hafa kostað hundruð mannslífa. 

Að sögn AFP fréttastofunnar brugðust almennir borgara í Armeníu ókvæða við. Nokkur þúsund manns komu saman fyrir utan stjórnarráðið í Jerevan til þess að mótmæla undirrituninni. Nokkur hundruð þeirra komust inn í bygginguna, létu greipar sópa inni á skrifstofum og brutu rúður.

Fyrr í dag viðurkenndu Aserar og báðust afsökunar á ða hafa skotið niður rússneska herþyrlu fyrir mistök. Tveir í þyrlunni létu lífið og þriðji særðist.

Héraðið Nagorno-Karabakh er alþjóðlega viðurkennt sem landsvæði í Aserbaísjan. Meirihluti íbúa er af armensku bergi brotinn, og er öflugur hópur aðskilnaðarsinna þar á meðal. Héraðið lýsti einhverju sinni yfir sjálfstæði en það er ekki viðurkennt.