
Samkomulag um stríðslok í Nagorno-Karabakh
Samkvæmt samkomulaginu tók það gildi klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma. Þar með er endi bundinn á sex vikna átök sem hafa kostað hundruð mannslífa.
Að sögn AFP fréttastofunnar brugðust almennir borgara í Armeníu ókvæða við. Nokkur þúsund manns komu saman fyrir utan stjórnarráðið í Jerevan til þess að mótmæla undirrituninni. Nokkur hundruð þeirra komust inn í bygginguna, létu greipar sópa inni á skrifstofum og brutu rúður.
Fyrr í dag viðurkenndu Aserar og báðust afsökunar á ða hafa skotið niður rússneska herþyrlu fyrir mistök. Tveir í þyrlunni létu lífið og þriðji særðist.
Héraðið Nagorno-Karabakh er alþjóðlega viðurkennt sem landsvæði í Aserbaísjan. Meirihluti íbúa er af armensku bergi brotinn, og er öflugur hópur aðskilnaðarsinna þar á meðal. Héraðið lýsti einhverju sinni yfir sjálfstæði en það er ekki viðurkennt.