Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Góður árangur í bóluefnaprófun markar þáttaskil

10.11.2020 - 14:14
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að tíðindi af góðum árangri lyfjafyrirtækjanna Pfizer og BioNTech við þróun bóluefnis marki þáttaskil. Ekki er kveðið á um þetta tiltekna bóluefni í samstarfi Íslands við Evrópusambandið um aðgengi að bóluefnum þegar þau verða tilbúin. Svandís segir þó viðræður í gangi við Evrópusambandið um að tryggja að Íslendingar verði í sem bestri stöðu. „Ég er mjög bjartsýn með það,“ segir hún.

Svandís segir að ennþá sé mörgum spurningum ósvarað um þróun bóluefnisins, svo sem um aukaverkanir, en að það séu góðar fréttir sem hafi borist af árangri í prófunum Pfizer og BioNTech.

Íslendingar hafa verið í samstarfi og viðræðum við Evrópusambandið um aðgengi að bóluefnum þegar þau verða tilbúin. „Við munum tryggja að Íslendingar séu öruggir í þessum efnum eins og öðrum. Við vitum að það eru margir aðrir framleiðendur sem eru komnir í annan og þriðja fasa í þróun. Þannig að við væntum þess að við verðum á eins öruggum stað og hægt er gagnvart Evrópusambandinu,“ segir Svandís um aðgengi að bóluefni Pfizer og BioNTech.

Svandís segir ekki á stefnuskránni að gera bólusetningu að skyldu í baráttunni við COVID-19 faraldurinn. „Við höfum yfirleitt ekki farið þá leið að gera það á Íslandi heldur höfum við frekar viljað fara þá nálgun að fólk sé vel upplýst og vilji undirgangast bólusetningar vegna þess að það telur það skynsamlegt. Ég tel að við munum nálgast það á sama hátt í þessu máli líka.“