Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Afleiðing þess að taka loftslagsmál ekki alvarlega

10.11.2020 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson
„Svona fer þegar loftslagsmál eru ekki tekin alvarlega,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra um það að íslensk stjórnvöld standi frammi fyrir milljarða útgjöldum fyrir að standa ekki við skuldbindingar sínar vegna Kyoto-samningsins.

Með Kyoto-samningnum árið 1997 átti að draga úr losun gróðurhúsaloftegunda og sporna gegn loftslagsbreytingum. Sérákvæði er um Ísland sem gerði landinu kleift að auka losun frá stóriðju. Þrátt fyrir það hefur Ísland ekki staðið við skuldbindingar sínar. Viðmiðunartímabil Kyoto-samningsins rennur út um áramót og þá er komið að skuldaskilum.

„Það liggur ekki fyrir hversu mikið þetta verður. Það er verið að skoða það. Það eru nokkrar leiðir færar til þess að bregðast við þessu. Það er í skoðun hjá starfshópi sem er í gangi núna,“ sagði Guðmundur Ingi eftir ríkisstjórnarfund í dag. „En ég tek það skýrt fram að svona fer þegar loftslagsmálin eru ekki tekin alvarlega. Núverandi ríkisstjórn hefur hins vegar gert það og er með trúverðugt plan fyrir 2030, fyrir Parísarsamningnn. Við búumst ekki við öðru en að við munum standa okkar pligt þar.“

Kemur til greina að Íslendingar borgi ekki? „Við stöndumst auðvitað okkar skuldbindingar. Það er alveg ljóst. Það á eftir að koma í ljós hversu mikið þetta er og með hvaða hætti þetta verður gert,“ svarar Guðmundur Ingi.

Guðmundur Ingi svarar því ekki hvort þetta sé áfellisdómur yfir öðrum ríkisstjórnum en segir: „Ég hefði viljað sjá þetta öðruvísi, það er alveg klárt mál. Aðalmálið er að núna höfum við tekist á við loftslagsmálin. Við erum að horfa á trúverðugar áætlanir til að standast okkar skuldbindingar árið 2030.“