
Að mestu óbreyttar heimsóknarreglur á hjúkrunarheimilum
Enginn úr hópi heimilis- og starfsfólks á Mörk reyndist smitaður af Covid-19 við skimun á sunnudag. Nú má hver heimilismaður fá einn gest, alltaf þann sama, tvisvar í viku.
Heimsóknartíminn er skipulagður fyrirfram og gestir þurfa að gæta ítrustu sóttvarna og vera í eins konar sjálfskipaðri sóttkví. Á vef hjúkrunarheimilisins kemur fram að heimilismaðurinn þar sem smitaður var sé á batavegi.
Á Skjóli og Sunnuhlíð í Kópavogi gilda áfram þær reglur að hver íbúi megi fá tvær heimsóknir náins aðstandanda í viku, klukkustund í senn. Stefnt er að því að taka upp sömu reglur á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund í næstu viku. Á hjúkrunarheimilinu Sóltúni er enn unnið eftir neyðarstigi. Þar þarf að panta heimsókn veikist íbúi skyndilega eða er á lífslokameðferð.
Fólki sem dvalið hefur á höfuðborgarsvæðinu síðustu tvær vikur er ekki heimilt að heimsækja hjúkrunarheimili Heilbrigðisstofnunar Austurlands, nema með sérstöku leyfi. Annars má hver íbúi fá einn gest í eina heimsókn á dag, með sérstökum undantekningum.