Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hægt verður að sækja um tekjufallsstyrk um mánaðamótin

Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Jónsson - RÚV
Hægt verður að sækja um nýtt úrræði, tekjufallsstyrki, og framhald lokunarstyrkja hjá Skattinum um næstu mánaðamót. Alþingi samþykkti í liðinni viku lög um aðgerðirnar sem hafa að markmiði að styðja fyrirtæki vegna áhrifa COVID-19 heimsfaraldursins.

Þetta kemur fram á vef fjármála- og efnahagsráðuneytisins í dag. Skatturinn undirbýr nú umsóknir og leiðbeiningar til rekstraraðila.

Úrræðið nýtist smærri fyrirtækjum og einyrkjum

Tekjufallsstyrkirnir eru sérstaklega ætlaðir til að treysta rekstrargrundvöll fyrirtækja sem hafa orðið fyrir miklu tekjufalli vegna faraldursins og aðgerða til að hefta útbreiðslu hans. Þeir gagnast sérstaklega smærri fyrirtækjum með einn til fimm starfsmenn og einyrkjum.

Undir úrræðið fellur t.d. menningar- og ferðatengd starfsemi en því er einnig ætlað að nýtast öðrum rekstraraðilum sem hafa m.a. þurft að sæta takmörkunum vegna sóttvarnaráðstafana án þess að hafa verið gert að loka. Úrræðið nær til tekjufalls sem varð frá vori til nóvembermánaðar (1. apríl - 31. október).

Tekjufallsstyrkirnir eru veittir fyrir allt að fimm stöðugildi á hvern rekstraraðila og tekur styrkfjárhæð mið af rekstrarkostnaði og tekjufalli. Rekstraraðilar sem verða fyrir 40-70% tekjufalli geta átt rétt á styrk að fjárhæð 400 þúsund krónur á mánuði á hvert stöðugildi, en sé tekjufallið 70-100% getur styrkur orðið 500 þúsund krónur á hvert stöðugildi á mánuði. Hámarksstyrkur verður 17,5 mlljónir króna á rekstraraðila.

Framhald lokunarstyrkja var einnig samþykkt á Alþingi í síðustu viku, en lokunarstyrkir hafa verið veittir frá fyrstu bylgju faraldursins í vor. 

Frumvarp um viðspyrnustyrki lagt fyrir Alþingi á næstunni

Þá hyggst fjármála- og efnahagsráðherra á næstu dögum leggja fram frumvarp um nýtt úrræði, viðspyrnustyrki, sem gert er ráð fyrir að verði veittir í framhaldi af tekjufallstyrkjum og gildi fram á næsta ár. Úrræðinu er ætlað tryggja að fyrirtæki sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna kórónaveirufaraldursins geti viðhaldið nauðsynlegri lágmarksstarfsemi á meðan áhrifa faraldursins gætir, varðveitt viðskiptasambönd og tryggt viðbúnað þegar úr rætist.