Allt að 800 vindmyllur?
Umsóknir um að reistir verði 34 vindmyllugarðar víðs vegar um landið liggja nú fyrir. Samanlagt uppsett afl þeirra er um 3400 megavött. Ef allt þetta gengur eftir gætu vindmyllur orðið nærri 800 talsins. Það fer reyndar eftir stærð þeirra og gerð. Þess má geta að samanlagt afl allra raforkuvirkjana á Íslandi, vatnsaflsvirkjana og jarðvarmavirkjana er rösklega 2700 megavött. Uppsett afl segir ekki alla söguna því framleiðslugeta vindmylla er talsvert minni en vatns- og jarðvarmavirkjana. Umsóknirnar hafa verið sendar Orkustofnun og munu að óbreyttu lenda á borði verkefnisstjórnar 4. áfanga rammaáætlunar.
Sjá fram á þunga stjórnsýslu
Hvers vegna er þessi mikli áhugi á að virkja vindorkuna? Guðni A. Jóhannesson, orkumálastjóri, segir að hann skýrist að hluta af því að menn telji að vindorkan geti verið hagkvæmur kostur.
„Hins vegar held ég að þessi mikli áhugi sé kannski vegna þess að menn sjá fram á mjög þunga stjórnsýslu í kringum vindorkuna ef hún á að fara í gegnum rammaáætlun. Ef afgreiðslutíminn í rammaáætlun verður með þeim hætti sem hann hefur verið þá er auðvitað eðlilegt að menn hugsi til mjög langrar framtíðar. Þess vegna held ég að kostirnir séu svona margir. Ég held að í raun og veru ef þetta hafi bara verið falið skipulagsyfirvöldum að sjá um þetta þá væru við að sjá miklu færri vindorkukosti sem væru í burðarliðnum.“
Frumvarps að vænta frá umhverfisráðherra
Það er nefnilega ágreiningur um hvernig eigi að afgreiða vindorkuna í kerfinu. Þarf vindorka að lúta sömu reglum og skilyrðum og vatnsorku og jarðvarma eru sett í rammaáætlunum eða nægir að afgreiða hana sem venjulegan atvinnurekstur? Í nokkuð langan tíma hefur verið reynt að svara þessu. Nefndir hafa verið að störfum en niðurstaðan liggur enn ekki fyrir. Nefnd þriggja ráðuneyta undir forræði umhverfisráðherra hefur verið að störfum í nokkuð langan tíma. Verkefni hennar var að vinna tillögur um lagabreytingar um leyfisveitingar og málsmeðferð vegna vindorku. Kanna átti hvort hægt væri að einfalda og flýta málsmeðferðinni með hliðsjón af sérstöðu vindorkunnar. Nefndin átti að svara þeirri grundvallarspurningu hvort vindorka ætti að falla undir lög um Rammaáætlun og ef svo þá með hvaða hætti. Hún átti einnig að svara spurningunni hvort aðferðafræði rammaáætlunar hentaði hefðbundnum virkjanakostum vindorku. Á frumvarpalista ríkisstjórnarinnar gerir umhverfisráðherra ráð fyrir að leggja fram frumvarp í þessum mánuði um breytingar á lögum um rammaáætlun með áherslu á vindorku. Með frumvarpinu er ætlunin að aðlaga lögin betur að sérstöðu vindorkunnar sem tiltölulega nýjum orkukosti hérlendis.