Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Eitt smit utan sóttkvíar á Norðurlandi eystra

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Björgvin Kolbeinsson
Það var mikið álag á Sjúkrahúsinu á Akureyri um helgina og má búast við því að innlögnum vegna COVID-19 fjölgi áfram í vikunni. Aðeins eitt smit greindist utan sóttkvíar á Norðurlandi eystra um helgina.

116 eru nú í einangrun á Norðurlandi eystra og 146 í sóttkví. Fimm smit greindust um helgina, fjögur á Akureyri, eitt á Dalvík. Af þeim var eitt smit utan sóttkvíar, það var barn á leikskólanum Pálmholti og er uppruni smitsins óljós. Rúmlega 50 fóru í sóttkví vegna þessa, starfsmenn leikskólans og börn. Nú er rúm vika síðan það greindist smit utan sóttkvíar á Dalvík.

Sex inniliggjandi á SAK

Sex liggja inni á Sjúkrahúsinu á Akureyri, enginn á gjörgæslu. Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga á Sjúkrahúsinu segir einstaklingana á breiðum aldri en flesta aldraða. „Við höfum þurft að færa fólk úr hefðbundnum verkefnum í valkvæðri þjónustu til þess að geta sinnt covid smituðum einstaklingum hjá okkur,“ segir hann. 

Álag á bráðamóttöku 

Álagið hafi verið mikið um helgina og bílslys fyrir helgi hafi gert vinnuálagið meira en ella. Þá megi búast við því að innlögnum fjölgi áfram í vikunni. Sigurður segir róðurinn þyngjast og þyngjast; „og við þurfum að einbeita okkur meira að því og frá annarri starfssemi en við getum ekki einbeitt okkur frá bráðastarfseminni og það verður bara að koma í ljós, ef að við þurfum á meiri mannafla að halda þá reynum við að útvega hann hvort sem að það er í bakvarðasveitinni eða annarsstaðar frá.“