Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Póstkosningar ekki eins einfaldar og þær hljóma

epaselect epa08747833 Cristian Song drops off his family's completed ballots for the 2020 presidential election at an official ballot drop box in Bethesda, Maryland, USA, 15 October 2020. The 2020 election between US President Donald J. Trump and former Vice President Joe Biden is 03 November.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
Kjósandi í Bethesda í Maryland skilar atkvæði sínu í kjörkassa fyrir utankjörfundaratkvæði Mynd: epa
Donald Trump fráfarandi forseti Bandaríkjanna hefur gagnrýnt fyrirkomulag kosninganna og haft uppi fullyrðingar um kosningasvindl. Þar vísar hann fyrst og fremst á póstatkvæði sem hann telur að séu ólögleg. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í kosningum í Bandaríkjunum og fjöldi póstatkvæða hafa aldrei verið fleiri.

Fyrirkomulag forsetakosninga í Bandaríkjunum kann að koma mörgum spánskt fyrir sjónir. Til að mynda er kjörmannakerfið frábrugðið því kerfi sem viðgengst hér á landi og víðar. Í hverju ríki er tiltekinn fjöldi kjörmanna sem ræðst af íbúafjölda. Þeir velja svo forseta. Kjósendur kjósa ekki forseta í beinum kosningum þar af leiðandi. 

Þátttaka í kosningunum nú var með því mesta í sögu Bandaríkjanna. Enginn forseti hefur fengið jafnmörg atkvæði í kosningum og Joe Biden, og ekki er enn fyllilega ljós hversu mörg atkvæði hann fær á endanum þar sem ekki hafa öll atkvæði verið talin ennþá. Hann hefur þegar fengið rúmlega 75 milljónir atkvæða en Trump rúmlega 70 milljónir atkvæða. Trump kaus sjálfur í póstkosningum þar sem hann er með skráð lögheimili í Flórída.

 

Póstkosningar mismunandi á milli ríkja  

Fyrirkomulag póstkosninga er mismunandi á milli ríkja Bandaríkjanna, og réttur kjósenda til að kjósa með þeim hætti er misjafn. Í tíu ríkjum eru kjörseðlar sendir til kjósenda óumbeðið. Í öðrum 35 ríkjum þarf að óska eftir því að fá að kjósa með því að póstleggja atkvæðið og í 5 ríkjum eru póstkosningar aðeins leyfðar ef fyrir því eru gildar ástæður, svo sem vegna heilsufars eða hreyfihömlunar. Í þeim ríkjum er heimsfaraldurinn ekki tekin sem gild afsökun fyrir því að mæta ekki í eign persónu á kjörstað.  Fram til þessa hefur póstkosning ekki verið þrætuepli 

Heimsfaraldurinn er ein helsta ástæða þess að mun fleiri ákváðu að kjósa með þessum hætti í kosningunum. Samkvæmt tölum frá U.S. Elections project voru send út rúmlega 92 milljónir kjörseðla í pósti, og 65 milljónir kusu með þeim hætti. Til samanburðar kusu 33 milljónir í póstkosningum árið 2016. Mun fleiri Demókratar en Repúblikar óskuðu eftir því að fá að kjósa með póstatkvæði. Um þriðjungur þeirra sem óskuðu eftir því að kjósa í póstkosningu voru eldri en 65 ára. Heldur fleiri konur en karlar óskuðu eftir því að kjósa í póstkosningum.

Mistök en ekki svindl

Trump fór mikinn á Twitter á meðan talning atkvæða fór fram og sagði að atkvæði sem bárust eftir að kjörstöðum var lokað væru ólögleg. Samfélagsmiðillinn varaði notendur við færslum hans þar sem þær innihalda rangfærslur.  Nokkur ríki leyfa kjósendum að skila atkvæðum í póst á kjördag og ábyrgjast að þau verði talin fyrir ákveðna dagsetningu. Þannig er það til dæmis í Pennsylvaníu, Georgíu og Arizona, sem voru þau ríki sem réðu úrslitum að lokum. Þá tekur það oft lengri tíma að koma atkvæðum bandarískum hermönnum erlendis heim og á réttan kjörstað til talningar. Í öðrum ríkjum er leyfilegt að telja póstatkvæði áður en kjörstaðir loka og því lágu úrslit fyrir fyrr þar. Trump hefur raunar farið mikinn síðan úrslitin lágu fyrir en engar sannanir hafa komið fram sem styðja við ásakanir hans um kosningasvindl. 

Kosningasvindl í Bandaríkjunum eru mjög sjaldgæf samkvæmt umfjöllun BBC. Þar kemur fram að á heildina litið eigi kosningasvind sér stað í 0.0009 prósentum tilvika. Þar er vísað í rannsókn frá árinu 2017. Í aðdraganda kosninganna nú komu upp nokkur vankvæði við útsendingu póstatkvæða.

Til að mynda voru 500.000 kjörseðlar í Virginiu sendir út með röngu heimilisfangi. Yfirkjörstjórn segist hafa leiðrétt þau mistök og að ekki hafi um kosningasvindl að ræða, aðeins mistök sem voru leiðrétt. Hið sama gerðist í New York þar sem 100.000 kjörseðlar með röngum nöfnum og heimilisföngum fóru í umferð. Í Ohio voru sendir út 50.000 kjörseðlar sem ekki átti að senda út. Kjörstjórnir á þessum stöðum gengu að eigin sögn úr skugga um að ekki væri hægt að svindla vegna mistakanna.