Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Margir á sjúkrahúsi – þrír lagðir inn á Akureyri

COVID-ástand á Landakoti
 Mynd: Landspítali/Þorkell Þorkelsso - Ljósmynd
Áttatíu liggja nú með COVID-19 á sjúkrahúsi. Þar af eru sex á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þrettán greindust með kórónuveiruna í gær og voru átta þeirra utan sóttkvíar. Sóttvarnalæknir skilar fljótlega nýjum tillögum. Tveir létust úr COVID 19 á Landspítalanum í gær. 

Andlát ekki óviðbúin því hópsýking hjá öldruðum

Þeir sem létust voru á áttræðis- og níræðisaldri. Ekki fást upplýsingar um kyn þeirra. Nú hafa tíu dáið í þriðju bylgju faraldursins, jafnmargir og í þeirri fyrstu. Sá fyrsti í þriðju bylgjunni lést fyrir rúmum þremur vikum þann 15. október. 

„Það er svo sem ekki óviðbúið við þessa hópsýkingu sem kom inn í þennan eldri hóp einstaklinga. Og við vitum það að það er viðkvæmasti hópurinn. Þannig að því miður gerðist það og við erum að sjá afleiðingarnar af því,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.

Þrír lagðir inn um helgina fyrir norðan

80 eru á sjúkrahúsi og fjórir á gjörgæslu. Af þessum áttatíu liggja nú sex á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Þrír þeirra voru lagðir inn um helgina. Enginn þeirra er á gjörgæslu en þar er þó þétt setið af öðrum orsökum segir Sigurður Einar Sigurðsson framkvæmdastjóri lækninga á sjúkrahúsinu. Róðurinn er nokkuð þungur eins og er segir hann. 

Þetta er allt á réttri leið

608 innanlandssýni voru tekin í gær. Þrettán reyndust smitaðir og meirihlutinn eða átta voru utan sóttkvíar. 634 eru nú smitaðir í landinu og 1046 í sóttkví.  

„Þróunin er bara svipuð myndi ég segja.“

Það voru fleiri utan sóttkvíar í gær en í fyrradag?

Já, þetta bara sveiflast á milli daga. Við erum ekki að leggja of mikið upp úr því.“

Þórólfur segist fljótlega í vikunni skila nýjum tillögum til ráðherra. Reglurnar núna gilda til 17. nóvember. 

„Þetta er allt á réttri leið og sígandi lukka er best. Og ég held að það sé bara gott að sjá þetta hreyfast í þessa átt. Það bara segir okkur að við þurfum að standa okkur eins og við höfum gert fram að þessu.“