Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Johnson reynir að blíðka Biden eftir stirð samskipti

epa08175359 British Prime Minister Boris Johnson departs 10 Downing Street for Prime Ministers Questions (PMQs) at the House of Commons in Central London, Britain, 29 January 2020.  EPA-EFE/WILL OLIVER
 Mynd: EPA - RÚV
Boris Johnson, sem naut talsverðrar hylli hjá Donald Trump, er illa séður hjá mörgum innan herbúða Joe Bidens, ef marka má frétt AFP í dag. Verðandi Bandaríkjaforseti hefur útilokað að gerður verði viðskiptasamningur við Breta ef Norður-Írlandi verði fórnað fyrir Brexit. Þá hefur hann lýst Johnson sem hálfgerðu „Trump-klóni“ . 4 ára gömul ummæli breska forsætisráðherrans um Obama virðast líka ætla að gleymast seint.

Breskir fjölmiðlar hafa birt nokkuð skondið myndskeið af Biden eftir að hann var lýstur sigurvegari kosninganna. Þar heyrist blaðamaður BBC biðja Biden um viðbrögð. „BBC? Ég er írskur,“ svarar hann og brosir.

Þótt orðin hafi eflaust verið látin falla í meira gríni en alvöru er vitað að Demókratar eru lítt hrifnir af Brexit-tillögum Boris Johnson þar sem þeir óttast að þær ógni friðarsamkomulaginu á Norður-Írlandi.

Biden hefur ekki farið leynt með álit sitt á Boris Johnson. Í desember, þegar Johnson vann stórsigur í þingkosningunum, lýsti hann breska forsætisráðherranum sem klóni af Donald Trump.  Ummæli Johnson um Barack Obama fyrir fjórum árum, þegar Biden var varaforseti, eru heldur ekki gleymd.  Johnson skrifaði að Obama væri andsnúinn Bretlandi þar sem hann ætti rætur að rekja til Kenýa. Forfeður hans hefðu haft andúð á breska heimsveldinu.  

En nú reynir Johnson að komast inn í hlýjuna hjá verðandi Bandaríkjaforseta til að vernda „hið sérstaka samband“ landanna tveggja. Það vakti athygli að hann var meðal fyrstu þjóðarleiðtoga sem sendi Biden hamingjuóskir.  „Við munum aldrei gleyma rasískum ummælum þínum um Obama og þrælslund þinni í garð Trump,“ skrifaði Tommy Vietor, fyrrverandi ráðgjafi Obama, á Twitter og gaf lítið fyrir kveðjuna.

Aðrir telja að Biden-stjórnin og Johnson eigi meira sameiginlegt en þegar Trump réð ríkjum í Washington.. Það komi breska forsætisráðherranum vel að stórri loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem halda átti á Bretlandi í þessari viku hafi verið frestað um heilt ár. Johnson þurfi því ekki að takast á við Trump og afneitun hans á loftslagsbreytingum. Hann getur miklu frekar hlakkað til þegar Biden gengur aftur til liðs við Parísarsamkomulagið  eins og hann hefur lofað.

Chris Coons, þingmaður Demókrata í Delaware, sagði í viðtali við BBC í morgun að Bretland og Bandaríkin ættu meira sameiginlegt en ekki. Og að honum fyndist eins og að sú mynd sem bandarískir fjölmiðlar hefðu dregið upp af Boris Johnson væri ekki sanngjörn.   

Dominic Raab, utanríkisráðherra Bretlands, tók undir með Coons að ríkin tvö gætu nálgast hvort annað á sviði viðskipta, loftslags-og öryggismála. „Næsta ár verður mikilvægt fyrir Bretland. Framundan eru mörg verkefni og við hlökkum til að takast á við þau með ríkisstjórn Bandaríkjanna,“ sagði Raab en þá tekur Bretland  líka við forystunni hjá sjö stærstu iðnríkjum heims. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV