Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ísland samþykkir COVID tilmæli Schengen

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ísland hefur samþykkt tilmæli um ferðir fólks milli landa innan Schengen svæðisins á meðan kórónufaraldurinn geisar. Nokkuð langt virðist í að hægt verði að taka þau upp því nærri öll lönd eru rauð í Evrópu, sem þýðir hátt nýgengi smita. Lönd þurfa að vera græn svo hægt sé að ferðast þaðan óhindrað. 

Tilmælin eru ekki lagalega bindandi og hér eru reglur þegar í gildi til 1. desember, segir dómsmálaráðherra, sem kynnti tilmælin á ríkisstjórnarfundi í fyrradag. Evrópusambandið samþykkti fyrir nokkru tilmæli um að taka upp samræmdar reglur um ferðir milli landa á meðan kórónufaraldurinn geisar í álfunni. Í lok október var ákveðið að taka þetta upp í regluverk Schengen. Ísland er hluti af Schengen svæðinu og íslensk stjórnvöld hafa samþykkt þessi tilmæli, segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra: 
 
„Við höfum auðvitað haldið uppi okkar sérstöðu, bæði okkar landfræðilegu stöðu og þeim möguleika að við getum hér skimað hvern sem kemur til landsins. Það á eftir að koma í ljós hvernig lönd taka þessu og hvort þau muni fylgja þessum tilmælum þar sem þau eru ekki lagalega bindandi.“

Áslaug segir að takmarkanir á landamærum ólík og eins mat ríkis stöðu faraldursins í öðrum ríkjum. Stjórnvöld hér fari yfir leiðir annarra landa. 

„Og það kemur auðvitað allt til greina í þeim efnum enda viljum við stuðla að sem mestri frjálsri för fólks þegar fram líður.“

En ekki svona alla vega enn sem komið er?

„Við erum búin að taka þessa ákvörðun til 1. desember og erum að vinna ýmsa vinnu fram að því marki,“ segir Áslaug Arna. 

Í tilmælunum felst meðal annars að fólki er leyft að ferðast frá löndum sem merkt eru græn miðað við nýgengi smita sem Sóttvarnastofnun Evrópu heldur utan um. Appelsínugulur og rauður þýða að ástandið er verra. Aðeins Grænland er grænt núna. Einu löndin sem eru appelsínugul eru Noregur og Finnland. Önnur lönd eru rauð sem þýðir að nýgengi er 50 smit eða meira á hverja hundrað þúsund íbúa miðað við síðustu tvær vikur.