Um leið og bandarískar sjónvarpsstöðvar greindu frá því að Biden hafi náð tilteknum fjölda kjörmanna æddu íbúar Ballina út á götu til þess að fagna sigrinum. „Ég held að Ballina hafi bjargað heiminum í kvöld,“ hefur CNN fréttastofan eftir Smiler Mitchell, íbúa bæjarins. Hann bætti því við að án Ballina væri Biden ekki til.
Ættingjar Bidens búa enn í Ballina. Meðal þeirra er Joe Blewitt, en þeir Biden eru fjórmenningar. Blewitt segist hafa hitt verðandi forseta nokkrum sinnum, og ber honum vel söguna. Hann sé jarðbundinn og mikill fjölskyldumaður.
Ættartengsl Bidens við Írland eru enn sterkari, því tíu af sextán langa-langöfum og -ömmum hans fæddust þar í landi samkvæmt stuðningsmönnum hans á Írlandi.
Líkt og fjölmargir aðrir flýðu forfeður Bidens hungursneyð í Írlandi á sínum tíma og freistuðu gæfunnar hinu megin Atlantshafsins. Langafi Bidens, James Finnegan, fór til New York frá Carlingford, strandbæ um 100 kílómetra norður af Dublin, árið 1950. Bærinn tók á móti Biden fyrir fjórum árum. Fyrir komu sína sendi hann bæjarbúum bréf sem meðal annars innihélt orðin: „Norðaustur-Pennsylvanía verður ávallt í hjrta mínu. En Írland er greipt í sál mína“.