Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Eftirförin tengist innbrotafaraldri í Mosfellsbæ

Eftirför lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu 8.11.20
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ? - Ljósmynd
Betur fór en á horfðist þegar aka þurfti lögreglubíl inn í hlið jeppa, sem lögregla veitti eftirför úr Mosfellsbæ í Laugardal síðdegis í gær. Eftirförin tengist rannsókn á innbrotafaraldri í Mosfellsbæ. Þetta segir Eín Agnes Kristínardóttir stöðvarstjóri á lögreglustöðinni á Vínlandsleið sem fer með rannsókn málsins.

Lögregla hafði haft eftirlit með mannlausu  íbúðahúsi í Mosfellsbæ um skeið og farið í húsleit þar fyrr í vikunni og fann þá talsvert af þýfi úr innbrotafaraldri í bænum. Einn var þá handtekinn þar.

Í gær fékk lögregla ábendingu um að mannaferðir væru við húsið og þegar lögregla kom að húsinu í gær varð vart við fólk þar sem flúði af vettvangi. Lögregla hóf þá eftirför, fjölmennt lið lögreglu var kallað til og lauk henni með því að lögreglubíl var ekið utan í jeppann til að stöðva för hans við höfuðstöðvar ÍSÍ í Laugardal. Ökumaðurinn var handtekinn á staðnum og verður hann yfirheyrður í dag.

„Enginn slasaðist sem betur fer, því það var talsverður árekstur,“ segir Elín Agnes. „Þetta hefði getað farið miklu verr.“