Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Bush hringdi í Biden og Harris

Kamala Harris, George W. Bush, Joe Biden
 Mynd: RÚV - Ljósmynd
George W. Bush, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna hringdi í Joe Biden nýkjörinn forseta landsins í dag og óskaði honum til hamingju með kjörið. Kamala Harris, nýkjörinn varaforseti Bandaríkjanna, fékk samskonar símtal frá forsetanum fyrrverandi.

Frá þessu er greint á CNN.

Þar er vísað í yfirlýsingu frá Bush þar sem segir að hann hafi þakkað Biden fyrir þá ættjarðarást sem hann hafi látið í ljós í ávarpi sínu í gærkvöldi. 

Bush var kjörinn 43. forseti Bandaríkjanna árið 2000 og gegndi embættinu í átta ár.

„Ég óskaði Kamölu Harris einnig til hamingju með sögulegan sigur hennar. Þó að okkur greini að á stjórnmálasviðinu, þá veit ég að Joe Bidener góður maður sem núna hefur fengið það hlutverk að stjórna landinu og sameina þjóðina. Ég bauð honum það sama og ég bauð Trump og Obama; að ég myndi biðja fyrir velgengni hans í starfi og hét því að aðstoða hann á allan þann hátt sem ég get.“

Bush sagði í yfirlýsingunni að hann hefði ennfremur óskað Trump Bandaríkjaforseta til hamingju með kosningabaráttu hans. „Hann fékk atkvæði meira en 70 milljóna Bandaríkjamanna - það er einstakt pólitískt afrek,“ sagði Bush í yfirlýsingu sinni.