Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Tilfellum heldur áfram að fjölga á heimsvísu

07.11.2020 - 02:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á meðan bandaríska þjóðin bíður niðurstaðna í forsetakosningunum heldur kórónuveirufaraldurinn áfram að herja á hana. Í gærkvöld bárust þær fregnir að metfjöldi smita hafi greinst í landinu, þriðja daginn í röð.

Fjöldi smita er nokkuð á reiki, allt frá því að vera rétt tæplega 122 þúsund samkvæmt Johns Hopkins háskólanum, upp í nærri 129 þúsund tilfelli samkvæmt tölfræðivefnum Worldometers. Þetta er þriðji dagurinn í röð þar sem tilfelli eru fleiri en 100 þúsund talsins. Innlögnum á sjúkrahús vegna COVID-19 fjölgar sömuleiðis, og dauðsföll eru yfir eitt þúsund talsins þriðja daginn í röð. Alls hafa nú nærri tíu milljónir Bandaríkjamanna greinst með COVID-19 og 236 þúsund látið lífið.

Samkvæmt Worldometers varð jafnframt metfjöldi tilfella á einum sólarhring í Frakklandi, rúmlega 60 þúsund talsins. Einnig hafa þau aldrei verið fleiri á heimsvísu, yfir 619 þúsund. Annan daginn í röð eru yfir níu þúsund dauðsföll skráð á heimsvísu vegna kórónuveirunnar.

Tilfellin á heimsvísu eru orðin rúmlega 49 milljónir, og rúmlega 1,2 milljónir hafa láitð lífið af völdum COVID-19.