Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

„Okkur tókst það, Joe“

Mynd: EPA-EFE / EPA
Kamala Harris verður fyrsta konan til þess að gegna embætti varaforseta Bandaríkjanna. Hún er jafnframt fyrsta svarta konan og sú fyrsta af asískum uppruna til að bjóða sig fram í embættið.

Í nærri fjóra sólarhringa hefur fólk beðið í eftirvæntingu með augun límd á þau ríki sem enn var óvissa um. Um klukkan hálf fimm í dag gerðist það, allir helstu fjölmiðlar lýstu Joe Biden sigurvegara. Um miðjan ágúst tilkynnti Biden að hann hefði valið öldungardeildarþingmanna Kamölu Harris sem varaforsetaefni. Harris er ein þeirra sem sóttist eftir því að verða forsetaefni Demókrataflokksins í kosningunum í ár en heltist úr lest frambjóðenda í desember. Í þeirri baráttu var slagorð hennar „fyrir fólkið". Þau Biden tókust umtalsvert á í kappræðum í kosningabaráttunni en Harris þótti engu að síður líklegt val hjá Biden. 

„Okkur tókst það, Joe. Þú verður næsti Bandaríkjaforseti,“ sagði Harris himinlifandi við Biden í símann þegar fregnirnar bárust. Hún virtist hafa verið í miðju útihlaupi þegar tilkynnt var um úrslitin. Harris er 56 ára, foreldrar hennar voru innflytjendur frá Indlandi og Jamaíka. Hún er fyrsta svarta konan og af asískum uppruna til að bjóða sig fram í embætti varaforseta Bandaríkjana og nú mun hún taka við embætti sem engin kona hefur gegnt.  

Harris hefur gengt embætti öldungadeildarþingmanns Kaliforníuríkis frá árinu 2016. Hún situr í dómsmálanefnd öldungadeildarinnar og var meðal annars áberandi í yfirheyrslum nefndarinnar yfir Brett Kavanaugh, sem síðar var skipaður í hæstaréttardómari. Áður var Harris ríkissaksóknari Kaliforníu.